132. löggjafarþing — 36. fundur,  7. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:03]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það eru kostuleg öfugmæli að kalla það sýndarmennsku að leggja til að fjárheimildir eða heimild til útgjalda, samkvæmt 6. gr., verði til staðar í fjárlögum vilji menn hrinda málum í framkvæmd á næstu mánuðum. Er þá ekki betra að hafa heimildir fyrir útgjöldum á fjárlögum ef tillagan yrði loksins afgreidd?

Ég hef stutt þessa tillögu og talað með henni í hvert einasta skipti sem hún hefur verið flutt. En ég er farinn að þreytast á því að stjórnarliðar reyna að slá sig til riddara með því að flytja slíkar tillögur, hafandi meirihlutaaðstöðu á þinginu til að fá eitthvað í gegn í sambandi við fjárveitingar, afl til þess sem gera skal, en svo gerist ekkert ár eftir ár. Ég vil láta menn horfast í augu við það. Fylgir hugur máli eða ekki?

Nákvæmlega sama staða kom upp í fyrra. Þá sögðu menn það sama: Það er ekki hægt að samþykkja fjárveitingar af því að tillaga liggur inni í þinginu. Síðan líður ár og svo aftur ár og enn ár. Svo er kosið, þá er lofað (Forseti hringir.) en svo er öllu gleymt. Nei, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, þetta gengur ekki svona fyrir sig. Ég segi já.