132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Raunfærnimat.

214. mál
[16:07]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mörg ár eru síðan menntamálaráðuneytið hóf tilraunir til að koma á kerfi til að meta þá færni og þekkingu sem einstaklingur hefur aflað sér með námi utan hins formlega skólakerfis. Þar er um að ræða óformlegt nám, það sem lærist á vinnustað og á ýmiss konar námskeiðum og af reynslunni. Mat á þessum þáttum er mikilvægt til þess að einstaklingur fái notið ofangreindra þátta við atvinnu eða við inntöku í nám innan hins hefðbundna skólakerfis. Raunfærnimat er sérstaklega mikilvægt fyrir fólk með stutta formlega skólagöngu. Þannig fæst viðurkennt að þroski, reynsla, vinnustaðanám og óformlegt nám sé mikils virði, að nám utan skólakerfisins sé metið.

Raunfærnimat er ekki síður mikilvægt fyrir atvinnulífið til þess að hæfileikar og hæfni fólks með lágt sjálfsmat nýtist. Fyrir samfélagið er dýrt að vanmeta þekkingu og færni fólks. Margmenntun er dýr, þ.e. þegar fólk er skikkað til að sitja á skólabekk og læra hluti sem það kann fyrir. Það er afar mikilvægt að framhaldsskólarnir og háskólarnir viðurkenni niðurstöður mats þegar það hefur farið fram og að viðkomandi einstaklingar geti gengið að því sem vísu.

Ég ætla að minna á að í haust var 119 einstaklingum, aðallega fullorðnu fólki, vísað frá dyrum framhaldsskólanna af einhverjum ástæðum en mikilvægt er fyrir þessa aðila að dyrnar að framhaldsskólunum séu opnaðar og þeir fái að njóta þess sem þeir kunna fyrir. Afar brýnt er að þróun raunfærnimats ljúki sem fyrst og ég leyfi mér að spyrja hæstv. ráðherra:

1. Hvað líður mati á óformlegu námi og starfsreynslu og gerð kerfis til að meta raunfærni sem unnið er að á vegum ráðuneytisins?

2. Taka fulltrúar framhaldsskólanna þátt í þessari vinnu? — Það verður ákaflega forvitnilegt einmitt að heyra svar ráðherra við þessari spurningu því ég hef grun um að ákveðinnar tregðu gæti innan framhaldsskólanna að meta óformlegt nám.

3. Hvernig er fyrirhugað að nýta eða samþætta kerfið íslensku skólakerfi?

4. Hvenær er reiknað með að afrakstur vinnunnar geti nýst?