132. löggjafarþing — 38. fundur,  7. des. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[21:34]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég átti ekki í neinum erfiðleikum með að halda þræði í ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar, (PHB: Sumir eru svo gáfaðir.) þótti hún afar fróðleg. Það er nú eins og oft áður, maður situr hér í þessum sal eða í nefndarstarfi á hinu háa Alþingi og finnst að maður sé að taka góðan háskólakúrs. Mér fannst fyrirlestur hv. þm. Marðar Árnasonar jafnast á við góðan fyrirlestur í góðum kúrsi. Þó að ég hafi hins vegar tamið mér að tala um raforkuframleiðsluna í teravattstundum en ekki í þessum gríðarlega fjölda gígavattstunda náði ég samt að umreikna það þar sem ég sat í sætinu mínu. Ég átti því ekki í neinum erfiðleikum með að skilja ræðu Marðar. Ég mundi treysta mér til að sitja með hv. þm. Merði Árnasyni og koma Pétri H. Blöndal í skilning um það hvert inntakið var.

Þetta frumvarp, eins og ég hef sagt áður, lætur kannski ekki mikið yfir sér. Það virðist sakleysislegt við fyrstu sýn en er það ekki. Margt af því sem hefur yfirbragð sakleysisins getur verið verulega skaðlegt og þetta frumvarp er þannig. Ég fór yfir það í 1. umr. um þetta mál á hvern hátt hér er verið að rífa ákveðinn einn þátt mála, stórra veigamikilla mála sem tengjast hvert öðru, úr samhengi. Hér er ég auðvitað að tala um vatnalögin, vatnsverndarfrumvarp sem okkur er tjáð að sé í samningu í umhverfisráðuneytinu, ég er að tala um hið stóra frumvarp sem er undanfari þessa frumvarps, frumvarp til laga um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum, og ég er að tala um rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

Öll þessi mál tengjast í mínum huga órjúfanlegum böndum og að mínu mati væri það afar metnaðarfullt verkefni ríkisstjórnar að koma slíkum málapakka í gegnum þingið. En þá teldi ég líka nauðsynlegt, ef ríkisstjórnin vill láta líta út fyrir að hún sé vandanum vaxin, að tengja þessi mál saman, fjalla um þau öll í einu, í ákveðinni heild, fara heildstætt yfir málin, hleypa þeim nefndum þingsins sem hlut ættu að máli að rannsóknarvinnunni sem þyrfti að fara fram. Í einingu, í ákveðinni samvinnu, gæti þingheimur farið á einum vetri í gegnum þetta heildarlitróf, þessa heildarstefnumótun — og án efa náð gáfulegri niðurstöðu ef menn ætluðu sér í alvöru að ná sáttum og búa hér til umhverfi sem sátt mundi ríkja um úti í samfélaginu, meðal almennings, meðal stofnana samfélagsins, jafnt þeirra sem vinna á orkusviði og hinna sem vinna á umhverfissviði og svo ekki síst meðal frjálsra félagasamtaka sem láta sig þessi mál miklu skipta.

Inntak þessa máls lýtur að þeim rannsóknarleyfum sem orkufyrirtækin ásælast nú um stundir og má segja að þetta sé kannski í síðasta sinn sem mál af þessu tagi á eftir að koma til kasta þingsins ef það fer í gegn hér í þessari lotu. Heimild Alþingis til að véla um eða fjalla yfir höfuð um einstakar virkjanir í formi virkjunarleyfa yrði nefnilega afnumin með nýju raforkulögunum. Þess vegna er hér um að ræða síðasta skiptið, síðasta vígið í þessum málaflokki, þ.e. þar sem alþingismenn geta komið að umræðu um einstaka virkjunarkosti eins og við höfum haft tilhneigingu til að draga hér inn í umræðuna um þetta mál því að vissulega eru hér tilteknir virkjunarkostir undir.

Hæstv. iðnaðarráðherra sagði þegar hún gerði grein fyrir málinu í 1. umr. að það byggði á þeirri staðreynd að við værum búin að innleiða samkeppni í vinnslu raforku. Vissulega er það rétt, raforkulögin sem tóku gildi 2003 heimila það sem kallað er samkeppni á raforkumarkaði. Með þeim lögum fékk hæstv. iðnaðarráðherra að mínu mati talsvert mikið vald, það vald að veita þessi virkjunarleyfi sem áður hafa fengið almenna umfjöllun hér á Alþingi Íslendinga. Alþingismenn hafa í gegnum tíðina gefið sérstakar heimildir til hæstv. iðnaðarráðherra til þess að gefa út virkjunarleyfi ákveðinna virkjunarkosta.

Það verður að segja eins og er að breytingin sem varð við nýju raforkulögin ristir afar djúpt, hún er afar djúpstæð og hún breytir í grundvallaratriðum umhverfi sem við höfum búið við áratugum saman.

Hæstv. ráðherra gerði að umtalsefni hér í 1. umr. að eftir að lögunum var breytt og nýju raforkulögin tóku gildi hafi orkufyrirtækjunum verið gert erfiðara fyrir, fyrst og fremst þeim orkufyrirtækjum sem stunda rannsóknir á vatnsafli, með rannsóknir vegna þess að þau hefðu ekki forgang til nýtingarinnar. Þegar orkufyrirtækin eru að rannsaka jarðvarma hafa þau ákveðna tryggingu fyrir því að þau fái að nýta rannsóknirnar áfram með því að þau fái virkjunarleyfið sjálft. En hvað vatnsaflið snertir, eins og lögin eru núna, hafa þau orkufyrirtæki sem stunda rannsóknir ekki forgang að nýtingunni og þau hafa heldur ekki tryggingu fyrir því að fá rannsóknarkostnað sinn endurgreiddan ef til þess kæmi að aðrir aðilar fengju nýtingar- eða virkjunarleyfið á viðkomandi svæði.

Í greinargerð með frumvarpinu segir, og kom fram í ræðu hæstv. ráðherra við 1. umr., að fyrir þessar sakir væru orkufyrirtækin tregari til að stunda rannsóknir á vatnsafli en heppilegt gæti talist. Mér finnst afar mikilvægt að gera athugasemd við þetta orðalag og spyrja hæstv. ráðherra, ef hún er að hlýða á mál mitt, sem við skulum gera ráð fyrir þó að hún sé ekki hér í salnum, hvað hún telur heppilegt að orkufyrirtækin stundi mikið af rannsóknum á vatnsaflinu í ljósi þess að nú þegar liggja fyrir ónýttir fullrannsakaðir virkjunarkostir, sem hafa verið taldir upp hér í fyrri ræðum, og sömuleiðis er talsvert mikil starfsemi orkufyrirtækjanna í jarðvarmavirkjunum. Það er verið að reisa hér gríðarlega stórar jarðvarmavirkjanir eins og allir vita. Þess vegna spyr ég: Hvers vegna telur hæstv. ráðherra nauðsynlegt að tryggja orkufyrirtækjunum þennan aðgang að rannsóknum í vatnsaflinu?

Við skulum líka líta til annarra þátta í sambandi við vatnsaflið. Við erum ekki svo rík af vatnsafli til að halda áfram að virkja það. Ég fór yfir það í 1. umr. hvaða vatnsföll það mögulega væru sem við ættum eftir að virkja. Þau eru nú ekki mörg þessi stærri vatnsföll sem má segja að séu eftir til að virkja á einhverjum stórum skala. Það má segja að það sé Jökulsá á Fjöllum annars vegar og hins vegar Hvítá í Árnessýslu. Það er spurning hvort menn ætla að halda áfram að fórna okkar stærstu náttúruperlum í því orkunýtingaræði sem ríkisstjórnin er haldin. Þá erum við kannski komin að spurningu sem mér finnst afar mikilvæg í þessu sambandi og er: Til hvers á að nýta þá orku sem orkufyrirtækin eru svo áfjáð í að rannsaka eins og sakir standa? Svarið við þeirri spurningu er bara eitt: Það á að nýta þá orku sem orkufyrirtækin hugsa sér að framleiða til stóriðju. Það á að selja enn meiri orku frá vatnsaflsvirkjununum okkar og hvaða virkjunum sem er á útsöluverði til stóriðjunnar.

Það er því alveg ljóst, herra forseti, að hagsmunir þeir sem hæstv. iðnaðarráðherra ber hér fyrir brjósti eru hagsmunir orkufyrirtækjanna, þ.e. hæstv. iðnaðarráðherra vill tryggja það að orkufyrirtækin geti fengið kostnað sinn endurgreiddan ef þau fá ekki virkjanaleyfi, og sömuleiðis að tryggja það að orkufyrirtækin geti farið í rannsóknir á vatnsaflinu með einhvers konar tryggingu fyrir því að þau fái annaðhvort nýtingarleyfi eða kostnaðinn endurgreiddan. Hér eru eingöngu hagsmunir orkufyrirtækjanna sem hæstv. ráðherra ber fyrir brjósti. Og hvers vegna er hún að því? Hún ber þá fyrir brjósti vegna þess að hún ætlar sér að reisa á Íslandi í nánustu framtíð a.m.k. þrjú stykki álver í viðbót við það sem verið er að reisa nú austur á fjörðum. Nú verðum við að fara ofan í saumana á stefnu þessarar ríkisstjórnar.

Því segi ég að þó að þetta mál hafi yfirbragð sakleysisins er það skaðlegt í eðli sínu vegna þess að allt þetta hangir á spýtunni. Ríkir hagsmunir ferðaþjónustunnar hanga þar með á spýtunni, hagsmunir þeirra sem vilja varðveita náttúruna okkar ósnortna sem telja að hún geti orðið okkur miklu öflugri tekjulind til framtíðar litið en álbræðslan. Það er óráð og ekkert annað en óráð að hleypa hæstv. iðnaðarráðherra í gegn með þetta mál áður en öll hin málin eru komin fram, áður en hv. alþingismenn fá tækifæri til að fjalla um þessa hluti í einu stóru samhengi.

Þá er ég komin að spurningunni sem ég bar upp í andsvari við hv. þm. Birki Jón Jónsson þegar við hófum þessa umræðu fyrr í kvöld. Hvers vegna var þetta mál ekki sent til umsagnar umhverfisnefndar Alþingis? Mér er kunnugt um að þess var óskað en það var ekki gert. Við eigum í þessum sal heimtingu á því að fá að vita hvers vegna hv. formaður iðnaðarnefndar tók þá gerræðislegu ákvörðun að senda málið ekki til umhverfisnefndar. (JÁ: Þeir geta kallað málið … iðnaðarnefnd … iðnaðarráðherra svari því.) Hæstv. forseti. Það væri ekki verra að hafa hv. formann iðnaðarnefndar hérna til að hlýða á mál mitt. Það eru fleiri spurningar sem eiga eftir að koma sem varða hann. (JÁ: Það þýðir lítið að spyrja ef enginn er til svara.)

Hæstv. forseti. Það er spurningin um þessi virkjanaleyfi sem Alþingi hefur, eins og ég rakti áðan, haft hingað til möguleika á að fjalla um. Í mínum huga skiptir miklu máli að Alþingi komi að slíkri umfjöllun. Ég er ósátt við það að útgáfa slíkra virkjanaleyfa sé eingöngu í höndum hæstv. iðnaðarráðherra, í höndum framkvæmdarvaldsins og stofnana þess eins og Orkustofnunar. Mín tilfinning er sú — ekki bara tilfinning, ég sé það í hendi mér á þeim frumvörpum sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur kynnt, þá er ég að tala um vatnalagafrumvarpið, frumvarpið um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum og þetta hérna — að Orkustofnun sé ætlað allt vald í þessum málaflokki. Þar eru stofnanir umhverfisráðuneytisins hunsaðar. Það er vaðið yfir þær á skítugum skónum svoleiðis að tveir virtir forstöðumenn í stofnunum umhverfisráðuneytisins, Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands, misstu þolinmæðina og umburðarlyndi þegar þessi mál komu fram síðasta vetur og tjáðu sig um þau á þann hátt, bæði með umsögnum sem þeir sendu hingað inn til þingnefnda og sömuleiðis í fjölmiðlum, að það endaði á því að hæstv. umhverfisráðherra var farinn að skamma þessa virtu forstöðumenn opinberlega í fjölmiðlum. Þótti mér leggjast ansi lítið fyrir hæstv. umhverfisráðherra þar. — Nú er hv. þm. Birkir Jón Jónsson genginn í salinn og gott að ég ítreki þá spurningu sem ég lagði fyrir hann áðan. Ég lagði hana líka fyrir hann í andsvari mínu við upphafsræðu hans: Hvers vegna var málið ekki sent til umsagnar umhverfisnefndar? (BJJ: Ég svaraði því þá.) Því var ekki svarað. Það hljóta að vera einhver rök fyrir því. Ég veit að beiðnin kom fram, erindið var ekki sent til nefndarinnar og við þurfum að fá skýringu á því hvers vegna það var ekki gert. Ég lít á það sem gerræðislega ákvörðun hv. formanns að það skyldi ekki hafa verið gert.

En eigum við sem sagt að láta framkvæmdarvaldinu og sérfræðistofnunum framkvæmdarvaldsins, Orkustofnun í þessu tilfelli, það eftir að fjalla um þessa hluti án þess að Alþingi komi þar nærri? Auðvitað fjallaði ég um þessi mál þegar raforkulögin fóru hér í gegn, og eins og þeir hv. þingmenn vita sem hér sitja í salnum voru þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ósáttir við grundvallaratriðin í raforkulögunum. Við greiddum atkvæði gegn þeim þannig að við reyndum andmæli okkar þar þó svo að við hefðum þá ekki árangur sem erfiði.

Mér finnst skipta máli að Alþingi taki afstöðu til þeirra verðmæta og nýtingar þeirra sem verið er að höndla með. Mér finnst skipta máli að Alþingi komi að þeim framkvæmdum sem í bígerð eru og mér finnst skipta máli að Alþingi taki afstöðu til þeirra áhrifa sem slíkar framkvæmdir hafa síðan í för með sér. Í mínum huga eru verðmætin sem um er fjallað náttúran og landið og það er ekki einhlítt á hvaða nótum við lítum þau verðmæti, það vitum við. Í mínum huga er ekki um venjulega verslunarvöru að ræða. Í mínum huga er um að ræða verðmæti sem skipta grundvallarmáli fyrir lífssýn mjög margra Íslendinga, kannski flestra Íslendinga. Mér finnst þau skipta máli fyrir það hvað það þýðir að vera Íslendingur og mér finnst þau ekki bara skipta máli fyrir núverandi kynslóðir, þau skipta máli fyrir allar komandi kynslóðir.

Þess vegna, virðulegi forseti, finnst mér skipta máli að vekja athygli á því að þau verðmæti sem hér um ræðir eru verðmæti sem hæstv. iðnaðarráðherra lætur í té einkaaðilum, orkufyrirtækjunum sem ásælast þessi verðmæti, verðmæti sem eru sameign allrar þjóðarinnar. Þess vegna set ég mig upp á móti þessu máli. Hér er verið að fjalla um verðmæti sem koma ekki bara hæstv. iðnaðarráðherra við eða hv. iðnaðarnefnd og ekki bara þeim meiri hluta sem nú situr á Alþingi. Það er þetta stóra samhengi sem hv. formaður iðnaðarnefndar neitar að horfast í augu við og hæstv. iðnaðarráðherra líka því að það er hún sem dregur vagninn.

Svo að ég fjalli aðeins nánar um þau verðmæti sem um ræðir vitum við að virkjun, hvort heldur er virkjun fallvatnanna eða jarðvarmans, felur í sér óafturkræfar breytingar á náttúrunni, ekki síst hvað fallvötnin varðar, sérstaklega auðvitað virkjun jökuláa sem hefur oft verið fjallað um hér. Fjallað hefur verið um á hvern hátt slíkar virkjanir eru ósjálfbærar og hversu mikil náttúruspjöll þær kalla yfir okkur. Það er engin von til að hægt sé að fjarlægja stórar jökulvirkjanir síðar meir og segja að áhrifin séu afturkræf. Það er algerlega vonlaust þannig að hér er um að ræða stórar framkvæmdir sem allar komandi kynslóðir eiga eftir að hafa sínar skoðanir á og eiga þá auðvitað eftir að hugsa okkur þegjandi þörfina þegar skoðaðar verða myndir af þeim perlum sem fórnað var á altari skammsýnnar stóriðjustefnu þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr að völdum. Og hvað kemur hún til með að sitja lengi við völd? Auðvitað vona ég sem hér stend að hún komi til með að sleppa þessum valdataumum eftir tæp tvö ár (Gripið fram í: 10 ár.) þannig að í næstu alþingiskosningum verði kjörin hér ný stjórn sem aðhyllist sjálfbæra orkustefnu, sem kemur til með að aðhyllast varúð í þessum málum, aðhyllast heildstæða nálgun í þessum málaflokki, (Gripið fram í.) ríkisstjórn sem kemur til með að fjalla á einu bretti um vatnalög, lög um rannsóknir og nýtingu jarðrænna auðlinda, um allan pakkann þannig að vatnsvernd sé inni í myndinni þegar við fjöllum um nýtingu vatnsaflsins.

Eins og ég var að segja erum við að fjalla um mikil verðmæti í vatnsaflinu en við erum líka að fjalla um mikil verðmæti í jarðvarmavirkjunum. Hv. þm. Mörður Árnason fór afar vel yfir djúpborunarverkefnið mikla sem ég viðurkenni að er afar fróðlegt að fylgjast með. Auðvitað þurfum við að vinna þá vinnu sem vísindamenn í dag eru að vinna varðandi rannsóknir á möguleikum okkar í jarðvarmanum. En af því að þar virðast leynast gríðarlegir möguleikar finnst mér sýnu auðveldara fyrir okkur að segja: Slöppum af hvað varðar vatnsaflið. Ef við gætum orðið sammála um það að við ættum að setja orkuna okkar, fjármuni, rannsóknarorkuna og vísindamennina í að rannsaka jarðvarmann liggur ekkert á fyrir þessi orkufyrirtæki sem nú ásælast rannsóknarleyfi í vatnsaflinu. Það liggur með öðrum orðum ekkert á að setja þetta mál hér í gegn, ekki nokkurn skapaðan hlut. Við getum bara hallað okkur rólega aftur í stólnum, haldið áfram að skoða málin, fengið alla sem hlut eiga að máli hingað til okkar til að ræða þau við okkur og fræða okkur, haldið áfram þeim háskólakúrs sem það felur í sér að fara í gegnum svona flókið mál. Við getum látið þessi orkufyrirtæki bíða. Þau hlaupa ekki frá okkur, ég get lofað því.

Varðandi jarðvarmann er ekkert sjálfgefið að það verði í lagi að fara í öll þau verkefni sem þar virðast vera á teikniborðinu. Við vitum alveg að jarðvarmavirkjanir eru umhverfisvænni en vatnsaflsvirkjanirnar í t.d. stóru jökulhlaupunum. Við teljum okkur geta afmáð Nesjavallavirkjun af yfirborði jarðar án þess að tiltakanlega mikil umhverfisáhrif sjáist eftir hana á sama hátt og við getum fjarlægt rennslisvirkjanir í bergvatnsám án þess að nokkur ummerki séu um þær eftir á. Ég held að jarðvarmavirkjanirnar lúti sannarlega öðrum lögmálum en við verðum líka að hafa í huga að þær eru náttúrlega reistar á afar viðkvæmum svæðum þegar horft er til umhverfismála og þegar horft er á náttúru Íslands.

Ég spyr um til að mynda virkjun á Torfajökulssvæðinu. Slík virkjun hefði í för með sér gríðarlegt jarðrask, ekki bara á sjálfum virkjunarstaðnum sem er einstakur í veröldinni að fegurð og mikilfengleik heldur verðum við líka að hafa í huga alla vegagerðina sem tengist slíku raski, slíkum virkjunum, allar línulagnirnar sem koma til sögunnar og þar fram eftir götunum. Auðvitað horfir öðruvísi við þegar við fjöllum um svæði sem hefur þegar verið raskað. Það hefur verið talað um það hér. Af því að framsóknarmenn hafa iðulega gert vinstri grænum upp þær skoðanir að við séum á móti öllum virkjunum og við höfum reynt að leiðrétta það úr þessum stóli er kannski rétt að ég segi það einu sinni enn, eins og ég er búin að segja núna: Auðvitað er ekkert að því að virkja bergvatnsár í farvegi sínum, fullkomlega umhverfisvænar virkjanir sem hægt er að taka niður ef við ákveðum að við þurfum ekki þessa orku lengur án þess að eftir lifi umhverfisummerki, skaðleg ummerki í náttúrunni. Á sama hátt höfum við vinstri græn ævinlega sagt að þar sem búið er að raska er eðlilegt að þar sé haldið áfram. Auðvitað er eðlilegt að halda áfram með Kröflu. Það setur sig enginn upp á móti því. En þá verðum líka að spyrja: Til hvers ætlum við að nýta orkuna? Við erum ekki sátt við það að eina orkunýtingartækifærið sem farið er út í hjá þessari þjóð sé til að virkja fyrir erlenda stóriðju. Við mótmælum þeirri stefnu hátt og kröftuglega hvar sem er og hvenær sem er og það höfum við gert frá því að flokkurinn varð til. Við vinstri græn aðhyllumst annars konar atvinnustefnu og segjum: Það er komið gott í stóriðjunni, hingað og ekki lengra. Förum nú að nota hausinn til annars en að skálda upp fleiri vatnsaflskosti sem hægt er að virkja fyrir erlenda stóriðju.

Veit hv. þm. Birkir Jón Jónsson hvers konar fréttir eru að berast utan úr heimi núna um framleiðsluvörur Alcoa, hvað Alcoa gerir við framleiðsluvörur sínar, álframleiðsluna sem eflaust á eftir að framleiða í álverinu austur á Reyðarfirði? Ég er með mjög nýlega úrklippu úr blaði sem heitir Business Wire og var gefið út í Pittsburgh 1. desember sl. Þar er sagt frá því að Alcoa hafi þann dag, á fullveldisdegi Íslendinga, tilkynnt að þeir væru búnir að gera gríðarlega stóran samning við fyrirtæki sem heitir Klune Industries og hvaða hlutverki gegnir þetta fyrirtæki? Jú, það sér um að afla Bandaríkjaher, sjóhernum, ákveðinna íhluta í eldflaugar sem bera sprengjur sem heita Tactical Tomahawk. Þessir íhlutir eru steyptir úr áli sem Alcoa framleiðir, og hvar? Mögulega í álverinu sem verið er að reisa austur á Reyðarfirði. Samningurinn er gríðarlega verðmætur, segja þeir hjá Alcoa, næstum því 30 millj. dollarar. Ég er, herra forseti, ekki stolt af því að Íslendingar skuli leggja hergagnaframleiðslu af þessu tagi lið og að við fórnum náttúruauðlindum okkar til að framleiða vöru af þessu tagi. Það finnst mér afar lágkúrulegt og ég verð mjög döpur þegar ég sé frétt eins og þessa.

Þetta hangir allt á sömu spýtunni. Við erum ekki einangruð þó að við séum eyland. Við erum hluti af þessum stóra heimi. Það skiptir máli hvað við gerum og við þurfum að skoða okkar skref í hinu stóra samhengi. Þótt þetta litla frumvarp hafi yfirbragð sakleysis, eins og ég sagði hér áðan, þá kann að vera að undir leynist mikil hætta og eitthvað sem er alls ekki saklaust.

Virðulegi forseti. Í mínum huga er það alveg ljóst að allar þessar virkjanir okkar, hvort sem það eru jarðvarmavirkjanir eða vatnsaflsvirkjanir og þar með þetta frumvarp hér, varða almenna hagsmuni verulega. Í mínum huga og margra Íslendinga mikilsverða hagsmuni. Það er þess vegna sem mér finnst eðlilegt að ákvarðanir um virkjunarleyfi séu teknar og rökstuddar hér, þar sem eðlilegast er að ræða slíka hagsmuni í stóru samhengi. Þess vegna var ég á móti raforkulagafrumvarpinu á sínum tíma af því að að mínu mati tók það ákveðin sjálfsögð völd úr höndum Alþingis Íslendinga, úr höndum þingmanna.

Það er kannski ekki úr vegi að rifja hér aðeins upp hvernig það kom til að þessi, í mínum huga, arfavitlausa raforkutilskipun Evrópusambandsins var innleidd á Íslandi. En menn þekkja það auðvitað, þótt það hafi kannski ekki verið rifjað upp nýlega, að með aðild okkar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið var Íslendingum gert að lögfesta hér sama rétt einstaklinga og lögaðila á öllu EES-svæðinu, þann rétt sem við Íslendingar höfðum búið einir að fram að því, til að eignast virkjunarréttindi vatnsfalla og jarðhita og fyrirtæki sem stunda orkuvinnslu og orkudreifingu. Sama gilti um kaup á fasteignum og orkunýtingu þeim tengda. Á 120. löggjafarþingi 1996 var lögum þar að lútandi breytt og í krafti þeirra samningsákvæða geta útlendingar nú eignast virkjunarréttindi og landareignir sem t.d. hafa að geyma jarðvarma hér á landi. En þessi ákvæði geta, eins og önnur hliðstæð, orðið afar varhugaverð fyrir íslenska hagsmuni og þau eru eitt af mörgum sem bent var á af andstæðingum EES-samningsins þegar sú umræða fór fram. Þegar samningaviðræðurnar um EES-samninginn stóðu yfir á árunum 1989 til 1991 létu íslensk stjórnvöld iðulega að því liggja í þeirri umræðu að ákvæðin um orkumál lægju að mestu utan samningssviðsins. Það var sagt að það hefði lítið reynt á samræmingu í orkumálum innan Evrópusambandsins. En á endanum kom auðvitað allt annað á daginn. Árið 1992 lagði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fram tillögur að tilskipunum um innri markað fyrir rafmagn og reyndar líka um jarðefnaeldsneyti, olíu og gas. Þessar tillögur miðuðu að því að stórauka frelsi í viðskiptum með rafmagn og reyndar líka jarðefnaeldsneyti. Sem lokaskref var svo gert ráð fyrir því að öllum raforkunotendum yrði gert kleift að semja beint við raforkuframleiðendurna. Hér á landi mættu þessar tilskipanir pólitískri andstöðu sem og víða í Evrópu og þá jafnvel af hálfu ríkisstjórna í aðildarlöndunum og innan Evrópuþingsins. En þær voru studdar með 235. gr. í Rómar-samningnum sem veitir einstökum ríkjum neitunarvald gagnvart tilskipunum. Svo fór á endanum eftir mikla og heita umræðu og mikil pólitísk átök að tilskipunin um jarðefnaeldsneyti var samþykkt 1995. Noregur samþykkti tilskipunina einnig í kjölfarið þrátt fyrir gríðarlega andstöðu innan Noregs við hana en ég held að það hafi verið eitthvað seinna, þ.e. eftir 1995. Í ársbyrjun 1994 leggur framkvæmdastjórnin fram nýja útgáfu að tilskipunum um innri markað með raforku. Þar var heldur hægar farið í sakirnar en í fyrri tilskipun og þess vegna náðist samkomulag á grundvelli hennar í ráðherraráði ESB og meiri hluti Evrópuþingsins samþykkti hana og innleiddi þá tilskipun sem tók gildi innan Evrópusambandsins 19. desember 1996.

Það er óþarfi að fara nánar í gegnum hvað í henni felst. Við þekkjum það eftir miklar umræður um raforkulögin og tilskipunina hér fyrir tveimur, þremur árum. Í grunninn var það sem sagt þannig að einkaréttur starfandi orkufyrirtækja var afnuminn og áskilið að vinnsla, flutningur, dreifing og sala á raforku sé aðskilið, þannig að um það ríki viðskiptalegt frelsi. Tilskipun þessi sem er frá árinu 1996 er nr. 92 er byggð á grein 100a í stofnskrá Evrópusambandsins og hún er túlkuð svo að hún falli undir EES-samninginn, þar eð orka sé hluti af vöruhugtakinu samkvæmt samningnum. Með samþykkt þingsályktunartillögu hér á hinu háa Alþingi á 125. löggjafarþingi heimilaði Alþingi að fallið yrði frá þessum klassíska stjórnskipulega fyrirvara við að fella umrædda tilskipun inn í EES-samninginn. En við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs mótmæltum þessu, við töldum að sérstaða Íslendinga í raforkumálum væri slík að það væri óheppilegt að tilskipun Evrópusambandsins um þennan innri markað tæki gildi hér á landi. Í því sambandi bentum við á ýmislegt, eins og smæð og einangrun íslenska raforkumarkaðarins og þá staðreynd að raforka er hér nær eingöngu framleidd með orkugjöfum sem mega teljast endurnýjanlegir. Hér er ekkert val á milli grænnar orku, svokallaðrar, sem framleidd er á endurnýjanlegan hátt og hinnar orkunnar sem framleidd er með kolum og olíu og losar þar af leiðandi gríðarlegt magn gróðurhúsalofttegunda. En það var einn af grunnþáttunum í orkutilskipuninni að neytendur ættu þetta val og gætu þar með keypt þá orku sem þeir teldu að ætti að framleiða í heiminum, þess vegna var talað um það í sambandi við orkutilskipunina að auka umhverfismeðvitund fólks, auka hlut vistvænna orkugjafa og neytendur ættu þá þetta val að kaupa vistvæna orkugjafa og velja þá umfram hina.

Hér var ekki um það að ræða, virðulegi forseti. Hér var eitt opinbert fyrirtæki ráðandi á raforkuframleiðslunni og aðgerðir til að byggja upp samkeppnismarkað í framleiðslu raforku alls ekki líklegar til að skila ávinningi. Ég er ekki farin að sjá það enn að það eigi eftir að verða einhver verulegur ávinningur fyrir íslenska neytendur af hinu nýfengna frelsi í raforkumálum. Ekki hrópaði ég jibbí jei húrra þegar bæklingurinn um að nú gæti ég valið mér raforkuseljanda kom inn um lúguna hjá mér fyrir tveimur vikum. (Gripið fram í.) Við mig höfðu samband kjósendur sem vildu meina að þetta kæmi þeim á óvart. Höfðu farið varhluta af því að þessi tilskipun hefði verið samþykkt og skildu hreinlega ekki hvað um væri að ræða. Það er ekkert skrýtið, virðulegi forseti, ef fólk fylgdist ekki þeim mun betur með því sem hér var að gerast, því þetta var löng og ströng umræða sem hér fór fram og mjög flókin og örugglega sofnuðu margir sem ætluðu sér að reyna að fylgjast með henni. Það eru því margir borgarar úti í íslensku samfélagi sem vita ekkert um hvað þetta mál snýst. Þannig að hagsmunir íslenskra neytenda af þessu nýfengna frelsi eru örugglega umdeilanlegir. Okkur var líka tíðrætt um það þegar þetta allt var að fara hér í gegn að þessi samkeppni gæti jafnvel torveldað og útilokað viðleitni til jöfnunar raforkuverðs. Það hefur komið í ljós á síðustu dögum að orkuverð úti á landsbyggðinni til húshitunar fer hækkandi og auðvitað er hægt að rekja það að hluta til til þeirrar staðreyndar að orkufyrirtækin eru öll að búa sér í haginn.

Í mínum huga var það alltaf þannig að Íslendingar gætu gert allar þær breytingar sem þeir vildu, sem segja mætti að gætu leitt til einhvers konar hagsældar eða væru hagstæðar fyrir okkar aðstæður, án þess að innleiða þessa tilskipun. Við hefðum t.d. getað skilið á milli framleiðslu og flutnings um stofnlínur ef við hefðum viljað það. Við hefðum ekki þurft að innleiða tilskipunina til þess. Við hefðum þess vegna getað farið út að efla fyrirtæki eins og Rafmagnsveitur ríkisins sem orkuframleiðanda. Við gátum greint t.d. á milli raforkusölu til stóriðju og almenns markaðar. En það er alkunna að ef raforkufyrirtækin sem framleiða orku til stóriðju væru með stóriðjusöluna í séreiningum þá yrði auðvitað að selja orkuna miklu dýrar. Þó að það sé óheimilt samkvæmt lögum, hafa hagfræðingar leitt í ljós að í grunninn er það salan til almennings sem niðurgreiðir stóriðjurafmagnið.

Hæstv. forseti. Það er skammarlegt að svo skuli vera og það skuli vera látið viðgangast. Alveg á sama hátt og það var skammarlegt árið 1995 að leyfa sér að gefa út þennan fádæma bækling þar sem Ísland er auglýst sem orkuríkt land sem selur orkuna á útsöluverði, „lowest energy prices“, lægsta orkuverð í Evrópu. Og ekki nóg með það, heldur auglýstu þeir í þessum bæklingi líka að það hér væri hægt að fá svo ódýrt vinnuafl. Ekki nóg með það. Heldur líka svo litlar umhverfiskröfur. Þetta var áður en við vorum komin á kaf í að setja allar framkvæmdir í mat á umhverfisáhrifum eða um það bil þegar við vorum að byrja á því. Litlar umhverfiskröfur, lág laun vinnuaflsins og lægsta orkuverð í Evrópu. Er það nú, virðulegi forseti. Af þessu stærði sig, sú sem nú situr við völd, og enn er stefnan sú sama. Engar hugmyndir. Fullkomin lágkúra. Bara þessi eina hugmynd. Nauðhyggjan sem landsbyggðinni er boðið upp á. Ef þið viljið ekki álver, þá fáið þið ekki neitt. Ja svei.

Virðulegi forseti. Það sem við ættum að vera að gera hér er að móta sjálfbæra orkustefnu fyrir Ísland. Sjálfbæra orkustefnu sem mundi byggja á því að endurnýjanlegir orkugjafar gætu á endanum leyst allt innflutt jarðefnaeldsneyti af hólmi. Sjálfbær orkustefna mundi líka fela það í sér að markvisst yrði dregið úr orkusóun og þar með líka losun gróðurhúsalofttegunda, sem er að sjálfsögðu ávinningur fyrir okkur, ekki bara okkur hér á Íslandi, heldur hnattrænt séð. Sjálfbær orkustefna mundi taka ríkulegt tillit til náttúruverndar og umhverfis við allar áætlanir og ákvarðana um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Þess vegna höfum við vinstri græn lagt megináherslu á að rammaáætlunin varðandi nýtingu vatnsafls og jarðvarma fái eitthvert stjórnsýslulegt gildi. Að hún sé ekki bara safn upplýsinga sem liggur í skúffu iðnaðarráðherra, engum til gagns. Það sem búið er að vinna að rammaáætlun, fyrsti áfanginn kostaði okkur yfir 500 millj. kr. Enginn hér í þessum sal hefur nokkurn tíma látið í ljósi að hann hafi séð eftir þeim fjármunum. Ekki sé ég eftir þeim fjármunum. Um 70 manns sem komu að þeirri vinnu. En hvað á að gera við niðurstöðuna? Niðurstöðu okkar færustu vísindamanna á ýmsum sviðum, bæði náttúruvísindum og orkuvísindum. Hagfræðingar og fleiri sem koma að þessu söfnuðu þarna viðamiklum upplýsingum, settu þær fram á mjög svo læsilegan hátt og þetta plagg liggur í skúffu iðnaðarráðuneytisins og það er ekkert gert með það. (Gripið fram í.) Þetta er auðvitað til skammar og þess vegna teljum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs að það sé ósvinna að rammaáætlunin skuli yfir höfuð heyra undir iðnaðarráðherra. Ef einhver dugur væri í okkur hér mundum við samþykkja fyrirliggjandi þingsályktunartillögu frá þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs sem gengur út á að forræði rammaáætlunarinnar verði tekið frá iðnaðarráðherra og sett undir umhverfisráðherra þar sem það á auðvitað heima. Þar sem Norðmenn létu það vera, eins og hv. þingmaður Mörður Árnason gerði grein fyrir með vinnu við sambærilega rammaáætlun hjá Norðmönnum. Það var ekki hæstv. iðnaðarráðherra Noregs sem stýrði þeirri vinnu, ó nei. Sú vinna heyrði undir umhverfisráðuneytið. Þannig að hér er öllu steypt á stél, eins og Megas mundi segja, og iðnaðarráðuneytið gín hér yfir öllum þáttum þessara mála eins og orkumálin séu einangruð frá umhverfisþáttum. Það eru þau ekki.

Hvenær ætlum við að játa það og læra að það þarf að hugsa hlutina heildstætt? Til þess er sú formúlering sem við höfum sett fram í þingmáli um sjálfbæra orkustefnu afar skýr og skilmerkileg, sjálfbær orkustefna er auðvitað ráðið. Þess vegna ráðlegg ég hv. þingmönnum sem eru, eins og ég sagði áðan, náttúrlega í góðum kúrsi í orkumálum að kynna sér vel þá sjálfbæru orkustefnu sem við höfum talað fyrir.

Ég er sannfærð um að ef við settumst niður í iðnaðarnefnd og umhverfisnefnd Alþingis og ræddum um sjálfbæra orkustefnu gætum við alveg náð sáttum. En til þess verða framsóknarmenn að breyta stóriðjuáherslum sínum og þeir verða að sjá ljósið í annars konar atvinnuuppbyggingu. Þeir verða að fá fleiri hugmyndir en þessa einu. Ég treysti því að ef framsóknarmenn opna huga sinn og fara að ræða við okkur hin, sem erum að reyna að horfa víðar yfir sviðið, er líka hægt að breyta þeim. Annars stæði ég ekki hér, annars héldi ég ekki hér aftur og aftur ræður á þessum nótum. (BJJ: Við verðum seint sammála um þetta.) Ég treysti því að hægt sé að breyta ungum manni eins og hv. þm. Birki Jóni Jónssyni, að hann sé ekki orðinn svo læstur á klafa stóriðjustefnunnar að ekki sé hægt að lofta út úr heilanum á honum og sýna honum að það eru aðrar leiðir. (Gripið fram í: Með op á heilanum.) Ég hef þá trú á hv. þm. Birki Jóni Jónssyni að hægt sé að kenna honum og sýna fram á að til séu aðrar leiðir. Ég er alveg til í að taka að mér hluta af þeirri vinnu. Ég hef tíma til þess og ég hef fullt af orku til að fara í þá vinnu. Ég er sannfærð um að ég fengi fullt af þingmönnum með mér í hana. (Gripið fram í.)

Einhvern tímann las ég blaðagrein í tengslum við Kárahnjúkamálið með skondna fyrirsögn sem þessi frammíköll kalla fram í huga minn. Fyrirsögnin var á þessa leið: Verndum hálendið, virkjum Austfirðinga. Mér finnst þetta alveg glimrandi skemmtilegt. Ég held nefnilega að við getum verndað hálendið og virkjað menn eins og hv. þm. Birki Jón Jónsson og alla aðra sem ég veit að ef þeir horfa með opnum huga á hlutina geta verið skapandi á öðrum nótum en raun ber vitni í dag. Það er örugglega ekki öll nótt úti með framsóknarmenn þó að það þurfi að taka dálítið vel á við að breyta þeim.

Af því að hv. þm. Birkir Jón Jónsson hefur verið nefndur í þessari ræðu oftar en einu sinni vil ég líka fá að ítreka hér spurninguna um reglurnar sem hæstv. ráðherra á ekki að fara eftir af því að það eiga ekki að vera neinar reglur: Er hv. þingmaður, hv. formaður iðnaðarnefndar, sáttur við það að afgreiða frumvarp af þessu tagi þar sem hæstv. ráðherra verður heimilað að veita orkufyrirtækjum rannsóknarleyfi með tengingu yfir í nýtingarleyfi án þess að um það verði settar nokkrar reglur? Á Alþingi ekki að hafa neitt um það að segja til hvaða hluta, hvaða þátta, hæstv. ráðherra á að líta þegar hann metur umsóknir? (Gripið fram í: Hvar eru hugsjónir hinna ungu manna?) Það er ekki búið að kveikja á þeim. (Gripið fram í: Ha?) Það þarf að virkja unga framsóknarmenn betur. (Gripið fram í: Ungir framsóknarmenn.)

Satt að segja er óskiljanlegt að meiri hluti iðnaðarnefndar skuli setja málið frá sér með þessum hætti, jafnvel þó að hv. iðnaðarnefnd setji aftur inn í frumvarpið með breytingartillögu ákvæði um nefndina, hina þverpólitísku nefnd. Því mætti í sjálfu sér fagna ef hún hefði eitthvað að segja, hún hefur bara ekkert að segja. Hvernig sér hv. þm. Birkir Jón Jónsson fyrir sér að þessi þverpólitíska nefnd geti komið með einhverjar framtíðarhugmyndir um orkunýtingu og fyrirkomulag þessara mála á Íslandi eftir að hæstv. iðnaðarráðherra væri búinn að fá heimild til þess að veita hinum áfergjufullu orkufyrirtækjum öll þau rannsóknarleyfi sem þau sækja um núna? Það liggur fyrir í gögnum málsins um hvað er verið að sækja. Hv. þm. Jóhann Ársælsson fór yfir það áðan þar sem hann var með gögn úr iðnaðarnefnd og hann las upp fyrirliggjandi umsóknir um rannsóknar-, nýtingar- og virkjunarleyfi. Það var ekki lítil lesning.

Hvað er verið að tala um hér? Það er verið að tala um vatnasvið Skjálfandafljóts, Tungnaár, Neðri-Þjórsár, efri hluta Skaftár, vatnasvið vestari og austari Jökulsár í Skagafirði. Það er verið að tala um Brennisteinsfjöll, Gjástykki og nágrenni, jarðhitann á Reykjanesskaga, háhitasvæðin í Reykjadölum, í Rangárþingi ytra, háhitasvæðin í Kerlingarfjöllum, háhitasvæðin í Brennisteinsfjöllum, vatnasvið Hólmsár í Skaftárhreppi — þetta er bara allt.

Þegar hæstv. iðnaðarráðherra væri búin að gefa út öll þessi rannsóknarleyfi mætti nefndin skila einhverri tillögu um framtíðarsýn. Hvaða bull er þetta? Eigum við að reyna að gera hlutina í réttri röð eða ekki?

Í sannleika sagt er verið að fara, eins og unglingarnir mundu segja, með þvílíka steypu að það tekur ekki nokkru tali. Það er ekki skynsamlegt að fara svona að hlutunum. (Gripið fram í.) Þess vegna er ástæða til þess að flytja hér þær ræður sem fluttar eru og það er ástæða til að taka fast á þessu máli. Það er skynsamlegt af okkur þingmönnum stjórnarandstöðunnar að gera það og leggja okkur í líma við að snúa þessari ríkisstjórn frá villu síns vegar í þessu máli og hreinlega taka það af dagskrá, svo arfavitlaust er það. Svo miklir hagsmunir eru í húfi sem gætu verið ónýtir með því að hleypa málinu hér í gegn.

Hæstv. forseti. Hér stöndum við í þeirri trú að orð okkar hafi einhver áhrif, öðruvísi gætum við þetta sennilega ekki. Ég nefndi hér og las upp þennan lista — sem nota bene er listi Landsvirkjunar — um rannsóknarleyfi en enn eru ótalin önnur orkufyrirtæki sem auðvitað bíða af áfergju þarna líka. Ég nefndi Brennisteinsfjöll. Þau hafa verið mér afar hugleikin og ég ætla að nota tækifærið hér og gera þingheimi grein fyrir ályktun sem við vinstri græn samþykktum á landsfundi okkar nýafstöðnum.

Þar segjum við, með leyfi forseta:

„Í Brennisteinsfjöllum á Reykjanesi er sérstætt háhitasvæði, nánast ósnortið og með afar hátt verndargildi. Svæðið er hið eina fjögurra eldfjallakerfa á Reykjanesi sem ekki hefur verið spillt með borunum, vegagerð og línulögnum. Í Brennisteinsfjöllum eru merkar gosminjar frá sögulegum tíma, umhverfið er stórbrotið með gígum, eldhraunum og hellum og þar má rekja opnar jarðskjálftasprungur og misgengi. Eldvirkt svæði nær alveg frá sjó norður fyrir Sandskeið. Dýrmætt er að hafa aðgang að öræfakyrrð og svo fjölbreyttu landslagi í aðeins 20 km fjarlægð frá þéttbýlinu á suðvesturhorni landsins.

Að Brennisteinsfjöllum steðjar nú hætta þar sem mikill þrýstingur er á stjórnvöld um að veita rannsóknarleyfi þeim aðilum er telja svæðið fýsilegt til orkunýtingar. Landsfundur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs skorar á stjórnvöld að friðlýsa Brennisteinsfjöll, varðveita þau sem ósnortið víðerni og tengja þau friðlandinu í Herdísarvík eins og lagt er til í náttúruverndaráætlun.“

Hæstv. forseti. Þetta er ályktun okkar vinstri grænna um Brennisteinsfjöll. Auðvitað ályktuðum við líka almennt um náttúruvernd og friðlýsingu, um stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs, friðun Jökulsár á Fjöllum og verndun Langasjávar, stækkun friðlandsins í Þjórsárverum, en þessi ályktun um Brennisteinsfjöll er mér mjög hugleikin því að ég held að í alvöru steðji núna veruleg ógn að Brennisteinsfjöllunum. Ég hvet þá hv. þingmenn og hæstv. iðnaðarráðherra ef hún hefur ekki farið og skoðað það svæði með eigin augum að gera það, 20 km fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu. Það eru verulegir verndarhagsmunir í húfi þar sem Brennisteinsfjöll eru, verulega miklir.

Ef við værum skynsöm mundum við nú setja reiknimeistara yfir það að reikna ólíka hagsmuni, annars vegar af því að vernda Brennisteinsfjöll og hins vegar að hleypa orkufyrirtækjunum þar að til að ná í jarðvarmann til að selja raforkuna ódýrt til stóriðju. Hvorir hagsmunirnir ætli kæmu betur út? Í mínum huga er ekki nokkur vafi, langtímahagsmunirnir af náttúruverndinni yrðu miklu meiri. Ég er sannfærð um það af því að reikniaðferðirnar sem umhverfissinnaðir hagfræðingar hafa þróað í þeim efnum hafa sýnt okkur fram á að ef dæmin eru reiknuð til enda þar sem náttúruverndarsvæði eru eða verndarsvæði sem hafa mikla verndarhagsmuni eru þau svo þung á vogarskálunum þegar til langs tíma er litið. Ef þau eru reiknuð inn í heildarverðmætamatið eða hagsmunamatið allt verður útkoman sú að á endanum borgi það sig beinlínis í beinhörðum peningum fyrir okkur að vernda slíkt svæði. (Gripið fram í: Hefurðu …?) Varðandi Brennisteinsfjöll hefur þetta ekki verið reiknað svo að ég viti en gerðir hafa verið útreikningar og skrifuð um þetta háskólaverkefni, bæði hér á landi og reyndar í háskólum erlendis. Ég minnist þess að í háskólum í Skotlandi hafa háskólastúdentar reiknað út svæði á þessum nótum hér á Íslandi. Það þarf oft að fara út fyrir landsteinana til að fólk átti sig á því hve mikil verðmæti eru í húfi. Þessi aðferð sem kölluð er „skilyrt verðmætamat“ hefur verið reynd á ákveðnum svæðum á Íslandi og það hefur ævinlega komið í ljós að verndargildi svæðanna sem hafa verið reiknuð er gríðarlega hátt. Stjórnvöld hafa þó verið ófáanleg til að meta þá hagsmuni og taka þá inn í lokaákvarðanatöku um endanlega nýtingu á svæðinu. Þá er ég að tala um að náttúruvernd sé líka nýting. Það er auðvitað það sem þessi stjórnvöld verða að fara að opna augu sín fyrir. Með því að vernda náttúruna ósnortna erum við að nýta hana til yndisauka og yndisaukinn hefur á reiknistokki þeirra hagfræðinga sem ég var að tala um ákveðið verðgildi.

Enn ein rökin fyrir því að hinkra og hætta þessu óðagoti, láta ekki eftir orkufrekjunni í orkufyrirtækjunum vegna þess að það liggur ekki lífið á, er að hér er fjöldi virkjunarkosta, í vatnsaflinu jafnvel, fullrannsakaður og ónýttur. Hv. þm. Mörður Árnason fór yfir það áðan og það skiptir verulegu máli að við tökum þetta upp á arma okkar á þeim nótum að við horfum heildstætt á málin.

Frú forseti. Ég blaðaði að gamni mínu í gegnum umræðurnar við 1. umr. þessa máls og rifjaði upp rök hæstv. ráðherra fyrir því að hún fór fram með þetta mál. Hún kemur því inn í framsöguræðu sína að orkufyrirtækin séu tregari til þess að stunda orkurannsóknir í vatnsafli vegna þess að þau geti ekki fengið tryggingu fyrir því að rannsóknarkostnaður þeirra verði endurgreiddur og ekki heldur vilyrði fyrir því að nýtingarrétturinn fylgi rannsóknunum. Þegar öllu er þó á botninn hvolft geta orkufyrirtækin alveg rannsakað þau svæði sem þau vilja. Þau geta tekið það upp hjá sjálfum sér en vissulega hafa þau ekki tryggingu fyrir því að rannsóknarkostnaðurinn verði endurgreiddur. Þó má segja að þau hafi einhvers konar vilyrði ríkisstjórnarinnar fyrir því að það sé í kortunum að slíkt verði gert. Þau geta auðvitað farið af stað með þær rannsóknir sem þau vilja, rannsóknir sem þau telja að þurfi að fara í á viðkomandi svæði þó að þau hafi ekki trygginguna í höndunum. Ég tel að orkufyrirtæki okkar séu það stöndug að þau eigi alveg að geta það, þau eigi að geta forgangsraðað í búi sínu þannig að þau geti rannsakað þau svæði sem þau telja verulega þörf á að rannsaka án þess að hafa þessa tryggingu í dag. Þau geta ætlað að þau komi til með að fá það engu að síður endurgreitt.

Ráðherra var í 1. umr. þráspurð um það hver þessi rannsóknar- og virkjunarleyfi væru. Hún vildi ekki svara en nú liggur þetta allt saman fyrir, við erum búin að fá það núna inn í gegnum hv. iðnaðarnefnd hvaða staðir það eru sem orkufyrirtækin leggja áherslu á að fá rannsakaða. Það er alveg ljóst að þar er um að ræða viðkvæmustu svæði landsins og þar af leiðandi langt í frá sjálfgefið að það eigi að heimila fyrirtækjunum að fara inn á þau. Við vitum alveg að jafnvel af rannsóknunum verður ákveðið rask, sérstaklega auðvitað í jarðvarmanum þar sem þarf að gera borplön til þess að gera rannsóknarholur. Borplanið eitt og sér er gríðarleg röskun í landslagi og óafmáanlegt í sjálfu sér. Jafnvel rannsóknarleyfin leiða af sér óafturkræf spjöll.

Það er búið að fara hér yfir hvaða virkjunarkostir það eru sem við eigum nokkurn veginn fullrannsakaða svo að það þarf ekkert að endurtaka það hér. Það er búið að fara yfir það á hvern hátt þessi raforkumarkaður okkar er uppbyggður, um hve mikið afl er að ræða sem og hvað það er mikið sem framleiðslan kemur til með að aukast bara með þeim virkjunum sem nú er verið að framkvæma. Hv. þm. Mörður Árnason fór inn á það að með þeim fjórum virkjunum sem eru í smíðum í dag komi orkuframleiðsla okkar til með að aukast um 73% frá því sem er í dag. Ég spyr enn og aftur: Til hvers í ósköpunum að vera að framleiða alla þessa orku ef það eru engar hugmyndir á bak við hana aðrar en þær að selja hana stóriðjunni ódýrt? Í mínum huga er svo mikil sóun í farvatninu hjá hæstv. ráðherra og svo rosalega vanhugsaðar ákvarðanir. Þessi flýtir og þetta óðagot og það að vilja ekki bíða eftir því að geta horft heildstætt yfir sviðið lýsir í mínum huga helst bara hroka, hroka gagnvart náttúru Íslands. Það er auðvitað skelfilegt til afspurnar að ríkisstjórnin skuli ekkert ætla að vitkast í þessum efnum, svo mikið er búið að reyna að tala yfir hausamótunum á henni í gegnum tíðina. Ég lýsi vonbrigðum mínum með hæstv. iðnaðarráðherra og þessa ríkisstjórn eina ferðina enn, vonbrigðum með þá hrokafullu afstöðu sem kemur í ljós í öllum þessum málatilbúnaði.

Eins og ég sagði við 1. umr. segi ég aftur: Látum nú af þessari orkugræðgi okkar og þessu óðagoti. Dokum við, gefum okkur þann tíma sem þarf í að fara yfir þessi mál heildstætt. Verum skynsöm, hlustum líka á rödd hjartans. Ég trúi ekki öðru en að ef hæstv. iðnaðarráðherra tengir sig við óminn sem er í hjarta hennar sæi hún skynsemina, hún sæi ljósið, alveg eins og ég trúi því að hv. þm. Birkir Jón Jónsson geti líka vitkast og fengið nýjar hugmyndir, aðrar hugmyndir um atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni en álhugmyndir. Ég segi, hæstv. forseti: Enn er von, ríkisstjórnin á möguleika. Ég vona að hún kasti þeim ekki á glæ.