132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[16:57]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég endurtek það sem ég hef áður sagt að gert er ráð fyrir í áætluninni að innri leiðin verði farin. Það er tekið mið af því en það er ekki skilyrt. Það er enginn ágreiningur um það milli ráðherra eða í ríkisstjórn. Að sjálfsögðu verður að fara yfir þetta mál en það liggur náttúrulega líka fyrir að við erum skuldbundin því að fara sem hagkvæmasta leið. Það stendur í lögum landsins. Vegagerðinni ber að velja hagkvæmustu leiðina. Það má svo sem lesa ýmislegt út úr því hvað er hagkvæmasta leiðin. Þar á náttúrulega ekki eingöngu að taka tillit til fjárhagslegra raka heldur líka langtímasjónarmiða í sambandi við þróun byggðar o.s.frv.

Hv. þingmaður sagðist styðja það að farið yrði í einkaframkvæmd en var hins vegar algerlega á móti veggjöldum en ástæðan fyrir því að menn setja mannvirki eins og þetta í einkaframkvæmd er að gert er ráð fyrir að það verði innheimt veggjöld. Ég vil heldur ekki útiloka að það geti komið til þess að farið verði í einkaframkvæmd í sambandi við aðrar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu, t.d. að því er varðar leiðina suður á bóginn áleiðis til Keflavíkur. Í mínum huga liggur fyrir að fara þarf í jarðgangagerð á næstu missirum til að bæta aðgengið að höfuðborginni og að Keflavíkurflugvelli. Mér finnst sjálfsagt að það verði einkaframkvæmd og geri ráð fyrir að þar munum við ekki útiloka veggjöld.