132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[11:28]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir er að segja hér er að eftir þá faglegu umfjöllun sem hún hefur veitt forustu í nefndinni þá hafi hún ekki trú á því að þessi lög muni virka á næsta ár. Í dag er staðan sú að það viðgengst ekki önnur eins ribbaldamennska í nokkurri annarri atvinnugrein og í þessari. Einmitt þess vegna hefði þurft að taka föstum tökum á þessu strax í upphafi og þar eru tveir lykilþættir sem er að finna í þessu frumvarpi. Það er annars vegar aðkoma Vinnumálastofnunar og hins vegar þetta sem blasir við öllum sem hafa kynnt sér þessi mál, að notendaábyrgðin er ekki þarna inni.

Það er alveg rétt röksemdafærsla hjá hv. þingmanni þegar hún segir að sá aðgangur sem Vinnumálastofnun hefur að upplýsingum og viðurlögin sem stofnunin hefur, geti gengið langt til þess að uppfylla nákvæmlega þær þarfir. En þá er það lykilatriði að Vinnumálastofnun hafi fjármagn til þess.

Nú kemur það fram hjá hv. formanni félagsmálanefndar að hún telur að strax á næsta ári muni stofnuninni verða féskylft, þá muni þurfa peninga. Hún er með öðrum orðum að segja að eins og þetta mál er búið af hálfu hæstv. félagsmálaráðherra muni lögin ekki ná tilgangi sínum, það er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi. Hv. þingmaður segir hreint út að það vanti peninga. Og það blasir auðvitað við að þegar hæstv. félagsmálaráðherra sendir einhvern ágætan starfsmann sinn og segir við nefndina: Ég er búinn að skoða málið og við fundum 12–15 milljónir. Þá var annaðhvort að stofnunin var illa rekin frá upphafi, sem hún er ekki, eða að þarna er verið að búa til leiktjöld.

Þess vegna verð ég að spyrja hv. þingmann: Er hún ekki ósátt við hæstv. félagsmálaráðherra út af þessu? Hún þarf reyndar ekki að svara mér, ég veit að hún er það.