132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

236. mál
[15:36]
Hlusta

Frsm. félmn. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég flyt nefndarálit hv. félagsmálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Þetta er 236. mál þingsins á þskj. 494.

Nefndin hefur fjallað um málið og fékk á sinn fund fjölmarga gesti. Í þessu máli er tekið á vinnutíma unglækna. Lagt er til að vikulegur vinnutímafjöldi lækna í starfsnámi verði styttur í áföngum. Frá gildistöku laganna, verði frumvarpið að lögum, fram til 31. júlí 2007 skal hámarksvinnutími lækna í starfsnámi, að yfirvinnu meðtalinni, ekki vera umfram 58 klukkustundir að meðaltali á hverju fjögurra mánaða tímabili. Frá 1. ágúst 2007 til 31. júlí 2009 skal hámarkið vera 56 klukkustundir á viku. Þannig er veittur sérstakur aðlögunartími og stefnt að því að meginregla vinnutímatilskipunarinnar um 48 klukkustunda vikulegan hámarksvinnutíma verði komin til framkvæmda hér á landi 1. ágúst 2009. Jafnframt er kveðið á um að reglur sem settar voru fyrir gildistöku laga nr. 68/2003 skuli halda gildi sínu, en nokkur vafi hefur leikið á um gildi þeirra.

Virðulegur forseti. Í öllum aðdraganda málsins og í vinnu þess í félagsmálanefnd var um tíma nokkuð óvíst um fjárhagsafleiðingar frumvarpsins og bar í upphafi nokkuð mikið á milli fjármálaráðuneytisins og skoðana unglækna í því sambandi. Við vinnslu málsins kom í ljós að einhver misskilningur hafði verið í því en að lokum urðu aðilar nokkurn veginn sammála um afleiðingarnar, þ.e. að stöðum unglækna við sjúkrahúsin mun líklega fjölga um tíu ár hvert vegna innleiðinga tilskipunarinnar þannig að ráðuneytið telur að um 40 læknar verði á þessu fjárreiðutímabili en unglæknar telja að um 37–39 lækna verði að ræða en menn fengu sameiginlegan skilning á fjárhagsafleiðingunum í stórum dráttum.

Hv. þingmenn Jóhanna Sigurðardóttir, Lúðvík Bergvinsson, Magnús Þór Hafsteinsson, Pétur H. Blöndal og Valdimar L. Friðriksson skrifa undir álitið með fyrirvara. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu með fyrirvara.

Virðulegur forseti. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.