132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Hollustuhættir og mengunarvarnir.

314. mál
[17:39]
Hlusta

Frsm. meiri hluta umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki alveg á hvað er á ferðinni hjá hv. þingmanni. Fyrir liggur og búið er að fara yfir það í nefndinni að skipuð er nefnd þar sem Samband íslenskra sveitarfélaga á aðild að. Nefndarmaðurinn kemur á fund nefndarinnar og rekur þetta allt saman fyrir nefndarmönnum, allt saman. Hann útskýrir það af hverju Samband íslenskra sveitarfélaga sendir ekki inn umsókn. Af hverju er það? Vegna þess að þeir sjá ekki ástæðu til þess af því að Samband íslenskra sveitarfélaga gerði ekki athugasemd við reglugerðina sem var sett árið 2002 í tengslum við þetta, ekki síðasta sumar heldur 2002, vegna þess að þeir komu að því að semja hana.

Ég veit ekki til þess að deilur séu um það og er þá alveg ný frétt fyrir mig ef deila er um það að hafa eftirlit með þessum leiksvæðum. Ef sveitarfélögin vilja gera þetta sjálf þá geta þau gert það. Það liggur alveg fyrir. Ef þau vilja kaupa þetta af öðrum aðilum þá geta þau gert það. Málið er ekki flóknara en það og menn eiga ekki að tala með öðrum hætti um málið.