132. löggjafarþing — 41. fundur,  9. des. 2005.

Hæstaréttardómur í máli jafnréttisstýru.

[18:52]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að óska Valgerði H. Bjarnadóttur innilega til hamingju með að hafa unnið sigur í þessu réttlætismáli. Það er náttúrlega mjög leiðinlegt að við skulum þurfa að enda þingið fyrir jól á því að tala um svona mál. Hér er á ferðinni mjög slæmt mál sem teygir anga sína víða. Þegar maður skoðar þingskjöl og annað kemur ýmislegt á daginn sem er miður fagurt.

Ráðherra kom hér í ræðustól 11. nóvember 2003 og sagði í umræðu um störf þingsins sem efnt var til vegna starfslokasamnings við forstjóra Byggðastofnunar að búið væri að leysa þetta mál í sátt og samlyndi. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson kom í viðtal á Útvarp Sögu 28. nóvember sl. — við erum með útskrift af þessu viðtali hérna og höfum dreift því til þingflokksformanna stjórnarandstöðuflokkanna — og þar komu í ljós mjög alvarlegar ásakanir á hendur fyrrverandi forstjóra Byggðastofnunar sem var leystur út með 20 millj. kr. starfslokasamningi á sama tíma og Valgerður H. Bjarnadóttir var nánast rekin úr starfi, flæmd burtu af félagsmálaráðherra. Hún fékk engan starfslokasamning, nei, manneskja sem hafði ekkert gert af sér, eins og komið hefur í ljós, blásaklaus manneskjan fékk engan starfslokasamning. Forstjóri Byggðastofnunar, sem ég fæ ekki betur séð en að hafi hreinlega framið auðgunarbrot ef framburður Kristins H. Gunnarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Byggðastofnunar, er réttur. Forstjóri sem hreinlega framdi auðgunarbrot slapp. Og hver var byggðamálaráðherra, hver bar ábyrgð á þessu? Jú, hæstv. ráðherra, Valgerður Sverrisdóttir. Hver bar síðan ábyrgð á starfslokum Valgerðar H. Bjarnadóttur? Hæstv. jafnréttisráðherra, Árni Magnússon.