132. löggjafarþing — 41. fundur,  9. des. 2005.

Frestun á fundum Alþingis.

406. mál
[19:10]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er kannski ekki mikið annað að gera en fallast á þessa þingsályktun enda hefur ríkisstjórnin lagst niður í öllum þeim málum sem virkilega hefði verið ástæða til að spyrna á móti, það má því segja að stjórnarandstaðan hafi ekki sérstök verkefni í þeim skilningi úr því að ríkisstjórnin hefur gefist upp. En ég verð þó að játa að í einu tilviki sé ég dálítið eftir því að missa þingið heim strax í kvöld því ég hefði gjarnan viljað hafa það hérna í nokkra daga til að ræða við hæstv. félagsmálaráðherra, Árna Magnússon.

Það er nefnilega þannig að hæstv. ráðherra hefur þær lagaskyldur að sinna þingskyldum og vera hér og svara til fyrir verk sín á þingi. Hann getur að sjálfsögðu farið í felur gagnvart fjölmiðlum eins og hann hefur gert en hann getur ekki hunsað þingið og það væri sannarlega ástæða til að hafa eins og tvo daga til að ræða við hæstv. félagsmálaráðherra og reyndar fleiri ráðherra í ríkisstjórninni og hana alla, um ýmsa hluti og m.a. og ekki síst þá sem bar á góma í upphafi þessa fundar undir liðnum Um störf þingsins. Það er því með nokkrum trega sem ég þó fellst á að afgreiða þessa tillögu og ég sé sérstaklega eftir því. (Gripið fram í: Við getum haldið honum eftir.) Út af fyrir sig mætti gera það já, að leyfa öðrum en hæstv. félagsmálaráðherra að fara heim og stjórnarandstaðan gæti rætt dálítið við hann eins og í tvo daga.