132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Eldi á villtum þorskseiðum.

185. mál
[13:19]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það stendur upp úr þessari umræðu að það er almenn skoðun manna að þorskeldi sé mjög vænlegt og að við eigum að styðja við bakið á því. Þannig hefur það líka verið og það hefur raunar komið fram hér í ákvörðunum þingmanna, m.a. í því að við tókum á sínum tíma ákvörðun um að setja á sérstakan fiskeldiskvóta, 500 tonn á ári, sem úthlutað er. Ég er alveg sannfærður um að ef það hefði ekki verið gert stæðum við miklu aftar en raun ber vitni í þessum efnum. Heilmikill stuðningur var í því fólginn og það eyddi ákveðinni óvissu sem menn hefðu annars staðið frammi fyrir. Á undanförnum árum höfum við verið að byggja upp mjög mikilvægan rannsóknarsjóð fyrir sjávarútveginn, sem við köllum Aukið virði sjávarfangs, AVS-sjóður, og sá sjóður hefur líka lagt til peninga til að styðja við bakið á þorskeldismönnum. Við höfum í verki sýnt áhuga á því að vel sé staðið að þessum málum.

Í tímans rás eftir því sem reynslan verður meiri verður ljóst að ekki er auðhlaupið að þessu. Þetta er enginn gullgröftur eins og menn héldu í upphafi, margir hverjir. Þetta kostar heilmikið og þróunin hefur verið sú að það eru tiltölulega fá fyrirtæki sem stunda þetta enda er þetta bæði fjármagnsfrekt og krefst mikillar þekkingar. Menn hafa líka verið að tala um hvort ekki væri eðlilegra að við huguðum frekar að fiskveiðiráðgjöfinni o.s.frv. Það er auðvitað sjálfsagður hlutur en það er hins vegar algerlega samrýmanlegt því að við stöndum vel að málum í fiskeldinu.

Hv. 1. þm. Reykv. n. sagði líka að Hafrannsóknastofnun væri íhaldssöm í þessum efnum. Það má vel vera. Ég ætla hins vegar að lýsa því yfir mjög einarðlega að ég vil að við höldum þessum seiðaveiðum áfram. Ég tel það nauðsynlegt. Ég er hins vegar sammála Hafrannsóknastofnun og ég hygg að hv. þingmaður hafi sagst vera það áðan þegar hann sagði að menn teldu það varhugavert að veiða lengra fram á haustið. Við eigum að gera það þegar náttúrulegu afföllin eru sem minnst. En að sjálfsögðu eigum við ekki að láta skort á veiðinni standa í vegi fyrir því að við getum þróað þorskeldið eðlilega. Það er sjálfsagður hlutur.