132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Rækjustofninn í Arnarfirði.

354. mál
[13:44]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr: „Hver er að áliti ráðherra ástæða þess að rækjustofninn í Arnarfirði hefur minnkað?“ Í könnun Hafrannsóknastofnunarinnar í október sl. fannst rækja á mjög takmörkuðu svæði innst í Borgarfirði, norðan Langaness í Arnarfirði og var heildarvísitala og vísitala kvendýra lág eða einn sjötti af vísitölunni haustið 2004. Nánar tiltekið fékkst rækjan aðeins í tveimur togum af 22. Til samanburðar fékkst rækja í fjórum togum af 22 í haustkönnun árið 2004. Mjög mikið var af ýsu, lýsu og þorski í öllum firðinum.

Eftir febrúarkönnun á síðasta ári þegar vísitala rækju var enn há og ýsa og þorskur höfðu gengið utar, voru leyfðar veiðar á 300 tonnum af rækju, ekki 300 þúsund tonnum eins og hv. þingmaður var með tilgátu um eða 3000 tonn heldur 300 tonnum af rækju. Talsverð óvissa var þar enn í mælingum á rækjustofninum í febrúar eins og var reyndar einnig í október 2004 þar sem rækjan var á minna svæði en vanalega miðað við árstíma. Eftir mánaðarveiði í mars sl., meiri dreifingu rækjunnar og góðan afla á sóknareiningu var ákveðið að auka aflamarkið í 450 tonn. Þetta var gert í samráði við heimamenn sem sendu Hafrannsóknastofnunni nákvæmar staðsetningar á rækjutogunum í Arnarfirði. Þannig fékkst mynd sem sýndi aukna útbreiðslu rækjunnar miðað við októberkönnunina 2004 og síst minni útbreiðslu miðað við febrúarkönnunina 2005.

Að ósk heimamanna og samkvæmt ákvörðun sjávarútvegsráðuneytisins stóð veiðitímabilið fram eftir sumri eða lengur en venja er þar sem illa gekk að veiða rækjuna á þeim takmarkaða tíma sem eftir var af vertíðinni. Bergmálsmæling Hafrannsóknastofnunarinnar á fiski, einkum þorski, fór fram í sérkönnunum fyrst í febrúar, því næst í júní og loks í október árið 2005. Febrúarkönnunin sýndi að lítið var af þorski í Arnarfirði en ýsa mælist illa í bergmálsmælingu sökum þess hve nálægt botni hún heldur sig eins og kunnugt er. Rækjukönnun sem fór fram í júní sýndi að mjög mikið var af ýsu í Arnarfirði sem hélt sig mun utar en fyrr um veturinn. Í júní var rækjan enn dreifð. Heldur meira var af þorski á sama stað og í febrúar og í október 2005 var bergmálsmælt á ný og fannst þá mikið af þorski og ýsu innst í Arnarfirði, í Borgarfirði nánar tiltekið, og mjög nálægt rækjutorfunni en heildarendurvarp á bolfiski í bergmálsmælingunni var margfalt meira en í febrúarkönnuninni 2004. Það er þess vegna ekki að undra, virðulegi forseti, að núna er talsverð þorskveiði í Arnarfirði og síðast í gær talaði ég við sjómann sem var að koma úr róðri og sagði mér að það fiskaðist ágætlega og það væru fjölmargir á veiðum þannig að upplýsingar hv. þingmanns um það að ekki væri verið að stunda þorskveiðar í Arnarfirði eru því einfaldlega rangar.

Samkvæmt reynslu fiskifræðinga hefur oft orðið mjög mikil þétting á rækju rétt áður en hún hverfur af svæðinu. Má þar t.d. vitna í hvernig rækjan í Húnaflóa þéttist gríðarlega innst inni í Miðfirði í febrúar árið 2000. Haustið 1999 var enn rækja innarlega í Húnaflóa en vísitala rækjustofns hafði minnkað verulega frá því veturinn 1997–1998 samfara því að mikið af þorski tók að halda sig allan veturinn á rækjuslóðinni. Það voru engar rækjuveiðar leyfðar á innanverðum Húnaflóa veturinn 1999 og 2000 og samt hvarf hún nánast öll.

Í grein eftir Unni Skúladóttur og fleiri um hrun rækjustofna á grunnslóð sem birtist í Ægi, 8. tölublaði 94. árgangi, er lýst hruni rækjustofna á fjórum fjörðum norðanlands samfara aukinni fiskgengd og einnig aukinni viðveru fisks á svæðunum allan veturinn. Upphaflega var talið að þorskur væri aðalafræninginn en á síðari árum hefur ýsu fjölgað gríðarlega á grunnslóð og þótt hún éti mun minna en þorskur að mati Hafrannsóknastofnunar þá er fjöldinn slíkur að ýsan getur haft töluverð áhrif. Það má þannig álykta að helsta ástæða minnkunar rækju í Arnarfirði sé vegna afráns fisks, þorsks, ýsu og að einhverju leyti lýsu á rækjustofninum enda aukin fiskgengd á grunnslóð undanfarin missiri eins og kunnugt er. Rækjuveiðarnar hafa auðvitað haft neikvæð áhrif sem viðbót við afránið sem væntanlega hefur aukist mjög einhvern tíma eftir umrædda bergmálsmælingu í júní sl. en þá safnaðist rækjan saman í eina torfu í ágúst innst inni í Arnarfirði. Sennilega hafa þá þorskur og ýsa smalað rækjunni innst í fjörðinn líkt eins og við höfum reynslu af víða eins og allir vita.