132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Heimild Fjármálaeftirlitsins til að beita dagsektum.

[13:39]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Nú er það þannig að ég studdi ekki lög um sparisjóði sem sett voru fyrir tveimur þingum. Ég tel raunar erfitt að halda þeim sem eigendum fyrir utan hið almenna viðskiptabankakerfi. Það breytir ekki því að hér voru sett lög um sparisjóði. Það er mikilvægt að þau lög séu virt og þeim sé framfylgt. Það er óþolandi staða fyrir Fjármálaeftirlitið að eiga að framfylgja lögum frá Alþingi án þess að hafa til þess viðunandi tæki. Það er óviðunandi að viðskiptaráðherra taki ekki af öll tvímæli um að við fáum a.m.k. í vetur frumvarp þessa efnis og segi aðeins að það séu líkur á því. Hér er ekki eftir neinu að bíða. Það tók ekki mörg missiri eða ár að leggja fram sparisjóðafrumvarpið á sínum tíma. En þegar Fjármálaeftirlitið kallar eftir tækjum til að fylgja lögunum fram þá er mikilvægt að skilaboð Alþingis séu skýr og það fái fljótt og vel þau tæki sem það þarf á að halda til að halda uppi aga á fjármálamarkaði. Óvíða í íslensku samfélagi er eins mikilvægt að skilaboðin séu skýr og á fjármálamarkaði og í þeim reglum sem um hann gilda.

Það er líka óþolandi aðstaða fyrir Fjármálaeftirlitið að það borgi sig í öllum tilfellum að áfrýja ákvörðunum þess. Sá sem áfrýjar til úrskurðarnefndar hefur engu að tapa. Málið fer aldrei fyrir dómstóla en ef hann er svo heppinn að vinna þá kemst Fjármálaeftirlitið ekki lengra með málið. Það hlýtur að draga alla vinnslu mála mjög á langinn og gera þetta mikilvæga eftirlit óskilvirkt. Ég hvet því hæstv. viðskiptaráðherra til að lýsa því yfir afdráttarlaust að frumvarp um Fjármálaeftirlitið og tæki þess komi fram á þessu þingi. Það hlýtur að eiga greiða leið í þingsölum og fá málefnalega og skjóta umfjöllun.