132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Stuðningur við einstæða foreldra í námi.

16. mál
[15:08]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég kem hér upp til að lýsa ánægju minni með þessa þingsályktunartillögu um stuðning við einstæða foreldra í námi. Ég hygg að hún sé tímabær. Það ætti að vera einfalt mál að ná um hana samstöðu í menntamálanefnd og fá hana afgreidda á þessu þingi þannig að við getum breytt aðstæðum einstæðra foreldra, sem tölurnar sýna að hér eru flestir konur, og gert þeim kleift að stunda nám frekar en hingað til hefur verið.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki hlutverk hjálparsamtaka að greiða niður nám eða gera efnaminni nemendum það kleift. Það er hlutverk ríkis og sveitarfélaga, hlutverk samfélagsins. Það sem hjálparsamtök reiða fram getur aldrei orðið annað en viðbót við það sem ríki og sveitarfélög leggja til með hverjum borgara, hverjum nemanda. Framtak Rauða kross Íslands hefur sannarlega verið góðra gjalda vert og stutt marga fram á veginn á leið til náms, til stúdentsprófs fyrst og fremst, og fyrir það ber að þakka. Hins vegar er það hlutverk ríkisins, ekki síst þegar um framhaldsskólamenntun er að ræða. Framhaldsskólamenntunin er á hendi ríkisins og því ber að sjá til að jafnrétti til náms sé í raun og sann og gildi fyrir alla landsmenn, líka einstæða foreldra.

Víða í framhaldsskólum greiðir fólk, þótt það séu kannski ekki kölluð skólagjöld, mjög há innritunargjöld. Ofan á þau leggst að margir þurfa að fara langa leið í framhaldsskóla. Á hinn bóginn hefur sú góða þróun orðið að framhaldsskólum hefur fjölgað um landið allt. En síðan þarf auðvitað að hafa peninga sér til framfærslu, sér og sínum í tilviki einstæðra foreldra.

Ég er þeirrar skoðunar að ekki eigi að nýta Lánasjóð íslenskra námsmanna til þessa. Lánasjóður íslenskra námsmanna er félagslegur framfærslusjóður sem tryggir jafnrétti til háskólanáms. Það er hans hlutverk og hann ber að verja sem slíkan. Hann hefur gert það að verkum að dóttir leigubílstjórans getur lokið doktorsnámi í sálfræði frá virtum erlendum háskóla, sonur verkakonunnar hefur getað orðið læknir og þannig hefur sjóðurinn aukið mannauðinn, ef þannig má að orði komast, hér á landi meira en nokkurn tíma verður hægt að telja í krónum og aurum.

Ég er þeirrar skoðunar að besta leiðin til að styrkja einstæða foreldra í námi í framhaldsskóla sé einmitt að þeir fái styrki en ekki framfærslulán. Ég tel einfaldlega að það sé skylda samfélagsins að sjá til að sem allra flestir ljúki a.m.k. prófi úr framhaldsskóla og fái helst meiri menntun. Það á ekki að standa í vegi fyrir þessu unga fólki að það eigi börn á unga aldri. Þess vegna ætti það að vera hlutverk ríkisins. Þetta eru ekki mjög margir einstaklingar eins og tölurnar sýna. Við erum ekki að tala um hér tugmilljónaupphæðir. Við erum hugsanlega að tala um það að þetta fólk fái þá fjármuni í hendurnar sem gera því kleift að vera í námi og ljúka því á tilsettum tíma, verða sér úti um menntun sem sjái til þess að það geti séð sér og sínum farborða með sómasamlegum hætti.