132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Horfur í loðnuveiðum.

[10:40]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er kannski ástæða til að menn ræði þessi mál hér á þingi og ástæðurnar eru fleiri en ein. Það er ekki bara að illa hafi gengið að finna loðnuna þetta haustið heldur hefur þetta gengið svona fyrir sig á undanförnum árum. Það er því full ástæða til að velta fyrir sér hvort verið er að ganga of nærri loðnustofninum.

Mælingaraðferðirnar sem hafa verið notaðar til að meta stofninn eru að mínu viti umdeilanlegar og ég tel að þær niðurstöður sem birtast í skýrslum Hafró, t.d. síðustu skýrslu fyrir síðasta 21 ár bendi til þess að ekki sé allt of mikið að marka þær mælingar. Niðurstaðan af þeim er sú að tillögur Hafrannsóknastofnunar sem eru byggðar á þessum mælingum eru þannig að loðnustofninn, sem er skammlífur uppsjávarstofn, er stöðugasti veiðistofninn við landið. Ef menn skoða þessar skýrslur sést það greinilega, og það hleypur á miklu. Engir stofnar komast nálægt þessum veiðistofnum aðrir en karfastofnarnir samanlagt. Þetta er umhugsunarefni, segir mér a.m.k. að ástæða sé til að velta fyrir sér hvort mæliaðferðirnar séu í lagi.

En það er fleira. Ég tel að full ástæða sé til að endurskoða nýtingarstefnuna hvað varðar loðnu vegna þess að mjög margt bendir til þess að hinar miklu loðnuveiðar hafi gríðarleg áhrif á afkomu þorsksins, hrygningu og afkomu á fiskislóðum við landið. Þetta þarf auðvitað að skoða og það er mikil skömm að því eftir að þessar veiðar hafa verið stundaðar undir vísindalegu eftirliti öll þessi ár þá skuli menn ekki hafa lagt í neina vinnu til að fylgjast með áhrifunum af þessari nýtingu.