132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[13:54]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég taldi mig eyða til þess heilmiklum tíma í ræðu minni áðan að segja frá því og rifja það upp hvernig það var þá áratugi þegar við börðumst í hvað mestri verðbólgu og hver niðurstaða þess var. Niðurstaðan varð sú að hinir lægst launuðu töpuðu alltaf þeim slag. Það var síðan vegna þess að þeir komust að því og skildu það að þeir stóðu fyrir því að reyna að koma okkur út úr þessari vitleysu.

Ég hef sannarlega áhyggjur af því hvernig fer fyrir þjóðfélaginu ef við förum í sama farveg aftur því að ég veit að þá verður það sama upp á teningnum, hinir lægst launuðu munu sannarlega fara verst út úr því dæmi. (Gripið fram í.) Þess vegna er það sem ég hef af því stórkostlegar áhyggjur ef við missum tökin á kjaramálunum, launamálum, verðbólgumálum og efnahagsmálum því að þá veit ég hverjir fara verst út úr því. Það eru þeir sem lakast standa að vígi í þjóðfélaginu. Þess vegna hef ég áhyggjur af því að við megum ekki misstíga okkur núna í einu eða neinu. (Gripið fram í.)