132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Fjárframlög til stjórnmálastarfsemi.

[15:07]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Þessi umrædda nefnd átti að skila af sér um áramótin og ég er á því að það sem tefji sé einkum það að Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkurinn vilja hafa ástandið óbreytt. Þeir vilja ekki klára dæmið. Þetta er mjög einfalt mál. Allar þjóðirnar hér í kring sem við viljum miða okkur við hafa reglur um þessa hluti. Það liggur á borðinu hver styrkir stjórnmálastarfsemina. Hættan er sú að hagsmunir fárra fjársterkra verði látnir ráða en ekki heildarhagsmunir þjóðarinnar. Við höfum séð þetta, m.a. þegar Búnaðarbankinn var afhentur S-hópi Framsóknarflokksins.

Við höfum líka séð hvernig unnið hefur verið að því að færa fiskimið hringinn í kringum landið í einkaeign. Þetta hefur valdið byggðaröskun og ekki hefur þetta byggt upp fiskstofnana. Það eru mörg svona mál sem koma upp aftur og aftur og ég er á því að ef við ætlum að ná árangri, þokast í lýðræðisátt, verði að taka til í þessum efnum.