132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Fsp. 3.

[15:24]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Blásið til sóknar. Já, gott og vel. Seinna í dag skulum við ræða í fyrsta skipti um frumvarp hæstv. menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið. Þá væri kannski ekki úr vegi að allir þingmenn á hinu háa Alþingi sameinuðust um að búa þetta frumvarp þannig úr garði að tryggt yrði að Ríkisútvarpið fengi að sinna sínu menningarlega hlutverki, t.d. varðandi það að framleiða íslenskt sjónvarpsefni sem allt of lítið er af í dag, því miður. Við vitum að unga fólkið í dag horfir mikið á sjónvarp en því miður er framleiðsla á íslensku sjónvarpsefni í algeru lágmarki.

Það mætti líka hugsa sér aðra aðgerð, t.a.m. að standa betur að því að texta sjónvarpsefni, jafnvel það efni sem sent er út á íslensku töluðu máli. Í dag stöndum við okkur allt of illa í því tilliti. En það skiptir miklu máli fyrir fólk, t.a.m. nýbúa og aðra sem eru að læra málið, líka börnin okkar, að þau geti lesið það sem sagt er.

Þetta eru einfaldar aðgerðir sem ég nefni hér en gætu skilað miklu ef út í þær yrði farið.