132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[21:17]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Það er bara þannig, forseti, að menn sem vitna í greinar verða að vitna í allar greinarnar og vera reiðubúnir að svara út úr í þeim biblíutexta sem þeir vitna í. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hefur ekki nokkra einustu lausn á því sem Páll Magnússon hefur beðið um í hverri einustu grein sem hann hefur skrifað nú í þrjá eða fjóra mánuði. Hann byrjar þær með því að segja að hann vilji formbreytinguna og síðan segir hann: En formbreytingin er lítils virði ef það á að skilja mig eftir með það tapfyrirtæki sem ég hef hér í höndunum.

Hæstv. menntamálaráðherra hefur ekki svarað þessu einu orði. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar, ekki heldur. Hann segir: Já, ég ætla að diskútera það við greinarhöfundinn í menntamálanefnd. Það er bara ekki nægt svar. Það sem gerist hér og hefur verið bent á og hefur ekki verið svarað enn og ekki hrakið, er að Ríkisútvarpið verður að Ríkisútvarpi hf. ef menn ná fram þessum vilja sínum þannig að lánardrottnar þess geta í raun og veru — það er auðvitað teóría en hún getur orðið praxís — gengið að Ríkisútvarpinu hf. á fyrsta degi og gert það gjaldþrota. Þannig er það.

Meira að segja hv. þm. Hjálmar Árnason talsmaður Framsóknarflokksins hér í umræðunni hélt að það væru 5 milljarðar sem menntamálaráðherrann væri að koma með. Það reyndust vera fimm aurar.