132. löggjafarþing — 49. fundur,  24. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[00:26]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Það er langt liðið á daginn og komið nokkuð inn í nóttina. Engu að síður finnst mér þingmenn halda vel dampi og umræðan verið skemmtileg og innihaldsrík og ég vil þakka sérstaklega fyrir þá umræðu sem átt hefur sér stað um þetta mikilvæga málefni sem snertir breytingu á rekstrarformi Ríkisútvarpsins.

Það sem mér finnst þó standa upp úr er að það er samhljómur. Ég er svona að reyna að greina þennan samhljóm í þá veru að það er samhljómur yfirgnæfandi meiri hluta þingheims að við viljum starfrækja öflugt Ríkisútvarp sem hafi tækifæri og möguleika til þess að sinna því hlutverki sem við ætlumst til að það standi undir, þ.e. öflugt menningarhlutverk og þjónustu sem og almannaþjónustuhlutverk. Ég vil því meina að í þessu öllu saman sé jákvæður samhljómur sem maður sér glitta í. Í þetta glittir akkúrat eftir umræðu dagsins.

Menn hafa komið víða við. Menn hafa rætt meðal annars fjölmiðlalöggjöfina, fjölmiðlaskýrsluna. Örstutt út af því langar mig að geta þess að það er alveg rétt að á sínum tíma, í sumar eða vor, urðu ákveðnar sögulegar sættir sem ég tel að hafi náðst í þá veru að fjölmiðlanefndin, þverpólitísk fjölmiðlanefnd, náði sameiginlegri niðurstöðu meðal annars í þá veru að hér ætti að rækja öflugt almannaútvarp, útvarp í almannaþágu. Ég tel einmitt að með því frumvarpi sem við ræðum í dag séum við að koma til móts við þessa tillögu fjölmiðlanefndarinnar. En þess ber líka að geta að minni hluti nefndarinnar kom síðan með sérálit, í tillögu fjölmiðlanefndarinnar, í þá veru að þetta ætti allt saman að ræða saman. Það lá hins vegar allan tímann ljóst fyrir að það var hvorki afstaða mín né annarra sem standa að ríkisstjórninni enda erum við að tala hér fyrst og fremst um breytt rekstrarform sem gerir Ríkisútvarpinu kleift að standa undir almannaþjónustuhlutverkinu. Ég leitaði eftir því að halda í þessa sátt sem er afar mikilvæg og brýn vegna þessa mikilvæga málefnis sem almenn löggjöf um fjölmiðla snertir. Menn hafa sagt: „Ja, enn ein nefndin sem er verið að biðja okkur um að skipa í.“ Ég verð að segja að ég var algjörlega ósammála og nokkuð hissa þegar formaður Samfylkingarinnar kom inn á þetta og sagði að þetta væri bara enn ein nefndin. Mér finnst talað hér af lítilsvirðingu um þátt sem snertir löggjafarsamkunduna, þ.e. þann að semja frumvörp því það er einn mikilvægasti þátturinn. Það er ekki bara eitthvert lagatæknilegt atriði, eins og menn reyndu að afgreiða tilnefningar í þá nefnd. Það er ekki lagatæknilegt atriði eingöngu að semja frumvarp því löggjafinn þarf að senda frá sér vel útskýrt hvort tiltekin atriði í slíku frumvarpi eigi að skýra þröngt eða rúmt. (Gripið fram í.) Það er ekkert lagatæknilegt atriði.

Engu að síður var það afar jákvætt að í því bréfi sem mér var síðan sent út af tilnefningunum þá var alveg skýrt að stjórnarandstaðan var engu að síður tilbúin að hitta þá lögfræðinga sem semja frumvarpið og lýsti því sérstaklega yfir. Það skiptir mig í rauninni ekki öllu máli hvernig eigi að útfæra það að koma saman, hitta fólk og ræða hlutina, hvort það heiti hópur, fundur eða nefnd. Meginatriðið er að allir flokkar komi að því að semja almennt frumvarp um fjölmiðla. Það er hið mikilvæga í þessu öllu saman. Eins og ég gat um áðan finnst mér rauði þráðurinn í umræðunni í dag vera að við erum sammála um að það skiptir máli að hafa hér öflugt Ríkisútvarp. Við erum ekki sammála um þær leiðir sem við viljum fara til að ná fram því þýðingarmikla hlutverki og markmiði.

Ég hafði nokkuð gaman af að hlusta hinn snaggaralega þingmann og mikla ræðuskörung, hv. þingmann Össur Skarphéðinsson, sem kom hér upp undir lok umræðunnar. Hann kom víða við, m.a. að fjölmiðlanefndinni sem ég minntist á á hér áðan. En hann tók undir að það þyrfti að efla Ríkisútvarpið. Þetta væri ekki bara spurning um form. Ég vil taka undir það sem útvarpsstjóri sagði m.a. í grein sinni og við höfum verið að segja hér í dag. Að formið skiptir máli til að ná markmiðinu. Og markmiðið er að efla menningarhlutverkið. Formið skiptir máli í þá veru. Ég hef mikla trú á því að sú leið sem hér er farin, að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag, leiði til að við munum sjá Ríkisútvarpið eygja möguleika í þá veru efla innlenda dagskrárgerð, efla menningarhlutverkið, efla þá þætti sem koma fram í 3. gr. og snerta hlutverk Ríkisútvarpsins í almannaþágu.

Hér er verið að ræða hvort Ríkisútvarpið eigi að vera ríkisstofnun áfram, sjálfseignarstofnun eða hlutafélag og sýnist sitt hverjum. Mér finnst þessi umræða hafa dregið fram hversu skiptar skoðanir eru á meðal stjórnarandstöðuflokkanna. Stefna Vinstri grænna er alveg skýr. Þeir vilja halda áfram að reka Ríkisútvarpið undir formi ríkisstofnunar meðan Frjálslyndir ljá máls á því að fara hlutafélagaleiðina að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Eftir nokkurt þóf var hægt að sjá stefnu Samfylkingarinnar eða glitta í hvernig hún sér þessu áorkað. Það kom í ljós að Samfylkingin vill fara sjálfseignarstofnunarleiðina en engu að síður var alveg ljóst í máli formanns flokksins, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum er Samfylkingin reiðubúin að fara hlutafélagaleiðina. Það stefnuleysi sem kemur fram í þessari umræðu er vissulega ekki hv. þingmanni Össuri Skarphéðinssyni að kenna því nú er allt annar einstaklingur í brúnni hjá Samfylkingunni sem virðist ekki hafa sömu skýru stefnu varðandi málefni flokksins og hv. þingmaður Össur Skarphéðinsson hafði þegar hann var formaður Samfylkingarinnar.

Ég vil aðeins fara yfir það af hverju við erum að fara hlutafélagaleiðina. Ég tel það rétt því að það er akkúrat sá þáttur sem hefur verið hvað mest til umræðu. Það er alveg rétt að það er ekki alltaf einfalt að velja félagaform þegar stofnað er til nýs atvinnurekstrar eða þegar rekstri ríkisstofnunar er breytt. Við mat á því þarf auðvitað að líta til markmiðs með rekstri félagsins, hversu mikil velta er á félaginu, hvers eðlis reksturinn er, hvaða reynsla er á einstökum félagaformum o.s.frv.

Ef við aðeins lítum yfir sjálfseignarstofnunina verður að segjast eins og er að jafnvel þó að stofnuð yrði sjálfseignarstofnun um rekstur Ríkisútvarpsins þá leiða ákvæði laga frá 1988, um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt skipulagsskrá og laga frá 1999, nr. 33, um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, til að lögin mundu ekki gilda um stofnunina. Hvað þýðir það? Af þeim sökum þyrfti að skilgreina ítarlega í sérlögum um sjálfseignarstofnunina hvert skipulag hennar yrði o.s.frv. Þannig að lögin yrðu í sjálfu sér mjög heftandi fyrir starfsemina því þau þyrftu að vera algerlega niðurnjörvuð. Það er akkúrat það sem við erum að forðast með þessu frumvarpi því það sem háir Ríkisútvarpinu í dag eru núgildandi lög sem eru mjög niðurnjörvuð varðandi alla starfsemi og skipulag Ríkisútvarpsins. Í þau lög er í dag niðurnjörvað hversu margir framkvæmdastjórar eiga að vera o.s.frv. Þannig að sú leið sem við erum að fara með þessari breytingu á Ríkisútvarpinu er að mæla ekki fyrir um innri skipan RÚV í lögum heldur að fela stjórn félagsins að ákveða að teknu tilliti til þess sem hentar síðan best hverju sinni. Ég held að þetta sé afar mikilvægt atriði, sérstaklega í ljósi þeirra hröðu breytinga sem eiga sér stað á fjölmiðlamarkaði og þeirra ítarlegu krafna, sem eru í rauninni auknar með þessu frumvarpi, til almannaþjónustuhlutverks Ríkisútvarpsins. Ég tel að með þessari leið, og er sannfærð um það, séum við að skapa skilyrði fyrir Ríkisútvarpið til að bregðast við nýjum aðstæðum á fjölmiðlamarkaði til að geta uppfyllt þær kröfur sem við gerum til ríkisútvarps í almannaþjónustu.

Það er líka rétt að undirstrika, og það kom m.a. fram í máli hv. þingmanns Sigurðar Kára Kristjánssonar, formanns menntamálanefndar, að rekstur Ríkisútvarpsins undir hlutafélagaforminu fellur undir regluverkið sem við þekkjum mjög vel og er afar þekkt og á sér ríka sögu hér á landi. Í lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, er að finna skýr ákvæði um réttindi og skyldur stjórnar, framkvæmdastjóra, hluthafa, stöðu endurskoðanda o.fl. Þessar reglur eru mjög þekktar. Eins og komið hefur verið inn á eru líka mörg dómafordæmi um hvernig eigi síðan að leysa úr álitamálum tengdum rekstri hlutafélaga. Þannig að lagaumhverfið í kringum hlutafélög er mjög skýrt meðan það er mjög óskýrt varðandi sjálfseignarstofnanir, og ef á að setja það í lög er það allt að því hamlandi. Enda má benda á að þegar Reykjavíkurborg var undir forustu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, hv. þingmanns, sem ákvað að breyta Félagsbústöðum Reykjavíkurborgar í annað rekstrarform, þá var þeim breytt yfir í hlutafélag. Hvernig er síðan stjórn þess hlutafélags valin? Hún er valin af borgarstjórn eða borgarráði. Sem sagt pólitískt skipuð stjórn. Hvað er að því að skipa stjórn með þeim hætti?

Ég skil að mörgu leyti vangaveltur og þá umræðu sem hv. þingmenn Össur Skarphéðinsson og Ögmundur Jónasson hafa dregið hérna fram og hvet hv. menntamálanefnd og formann menntamálanefndar til að fara vel yfir þær athugasemdir sem þessir ágætu þingmenn hafa vikið að. En ég vil líka benda á það sem hv. þingmaður Ögmundur Jónasson hefur margoft bent á hér úr þessum ræðustól, að hann er ekkert tortrygginn gagnvart þeim fulltrúum sem kjörnir eru af Alþingi. Hann hefur margítrekað það og sagt að hann treysti slíkum fulltrúum alveg jafn vel, ef ekki betur en fulltrúum sem valist hafa utan úr bæ. Af hverju er það? Það er út af því að þingið er lýðræðislega kjörið og fulltrúar þess hafa lýðræðislegt umboð á bak við sig. Það er líka alveg ljóst með þessu nýja fyrirkomulagi er verið að minnka pólitísk afskipti markvisst. Það er verið að koma í veg fyrir pólitísk afskipti því þetta er (Gripið fram í.) stjórn hlutafélags sem hefur ekkert með dagskrá að gera og á ekkert að hafa með dagskrá að gera og er með fulltingi Alþingis á bak við sig.

Hér hafa verið dregnar fram tillögur eins og það að starfsmenn eigi að eiga þátt í stjórn félagsins. Gott og vel. Ég hvet menntamálanefnd hv. til að fara vel yfir þær hugmyndir sem hafa verið settar fram í dag varðandi stjórn hlutafélagsins. En af hverju frekar starfsmenn Ríkisútvarpsins? Af hverju ekki allt eins hlustendur? Af hverju ekki allt eins einhverjir aðrir einstaklingar en starfsmennirnir? Ég hef valið þá leið og komið með þá tillögu að best væri að stjórn hlutafélagsins væri kosin af Alþingi vegna þess að það eru lýðræðislega kjörnir fulltrúar þegnanna í landinu. Það er ósköp eðlilegt að fara þá leið. Það er líka kveðið alveg skýrt á um hvert hlutverk stjórnarinnar er. Það kemur fram í 9. gr. og 10. gr. frumvarpsins þar sem farið er gaumgæfilega yfir stjórn Ríkisútvarpsins og starfssvið hennar. Og í 11. gr. eru dregnar fram skyldur útvarpsstjóra, hann er framkvæmdastjóri Ríkisútvarpsins og hann er einnig æðsti yfirmaður allrar dagskrárgerðar.

Virðulegi forseti. Hér er því verið að gera allt miklu skýrar en gert er í núgildandi lagaumhverfi og það sem skiptir mestu máli og er rauði þráðurinn í þessu öllu er að það er verið að skapa skilyrði fyrir Ríkisútvarpið og þá starfsmenn sem þar eru að til starfrækja hlutverk og uppfylla kröfur sem við hér á hinu háa Alþingi gerum til Ríkisútvarpsins. Þannig að það sé alveg skýrt og ljóst. Og ég hvet þá þingmenn sem eru í hv. menntamálanefnd til að fara gaumgæfilega yfir athugasemdir sem berast nefndinni.