132. löggjafarþing — 49. fundur,  24. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[00:52]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt, hér hafa menn talað um mikilvægi þess að starfrækja öflugt ríkisútvarp í almannaþágu. Engu að síður hafa margir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins talað um mikilvægi þess að við búum stofnuninni það rekstrarform að hún verði duglegri að skera niður, reka stofnunina hallalaust. Hef ég misskilið þetta? Ég held ekki.

Varðandi áform um að selja eða selja ekki hafa menn bent á þá stefnu sem margir alþingismenn og flokkar á borð við Sjálfstæðisflokkinn hafa verið að beita sér fyrir. Ég trúi því alveg að hæstv. ráðherra meini það sem hún segir í þessu efni, ég trúi því alveg. En hlutirnir gerast ekki svona.

Fyrst er stofnun svelt. Þá gerist það að starfsmenn hennar gefast upp og segja: Allt er betra en núverandi fyrirkomulag. Þá er hún gerð að hlutafélagi til að þjóna pólitískum markmiðum þeirra sem nú fara með völdin. Næsta skref er það að stofnunin kemur til með að búa við fjársvelti eða þörf er á meira fjármagni inn í reksturinn. Þá verður sagt: Við, Morgunblaðið eða aðrir aðilar, erum reiðubúin að koma með fjármagn, talsvert fjármagn inn í stofnunina. Er einhver sem ætlar að standa í vegi fyrir því að slíkir aðilar styrki stofnunina með því að veita meira fjármagn þarna inn? Er það ekki gott?

Þannig gerist þetta. Ekki vegna þess að áform séu uppi um að svíkja gefin fyrirheit. Þetta gerist einfaldlega þegar búið er að breyta rekstrarforminu, setja stofnunina í (Forseti hringir.) markaðspakkningu og upp á færibandið til einkavæðingar. Það er það sem verið er að gera með þessu frumvarpi.