132. löggjafarþing — 49. fundur,  24. jan. 2006.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

402. mál
[00:59]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 36/1982, um Sinfóníuhljómsveit Íslands. Eins og ég kom inn á í framsöguræðu minni um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið hf. er frumvarp þetta lagt fram samhliða því og byggir á að fella niður þátttöku Ríkisútvarpsins í rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Frá síðasta þingi hefur jafnframt orðið sú breyting á frumvarpinu að nú er lagt til að greiðsluskylda Seltjarnarnesbæjar falli niður. Bæjarstjórn Seltjarnarness hefur ítrekað mótmælt greiðsluþátttöku sveitarfélagsins og óskað eftir niðurfellingu hennar. Bæjarstjórnin hefur bent á að þegar hún samþykkti aðild að rekstrarkostnaði hljómsveitarinnar árið 1982 hafi verið gert ráð fyrir því að fleiri sveitarfélög en Reykjavík og Seltjarnarnes tækju þátt í rekstrinum en svo hefði ekki orðið. Með frumvarpinu er orðið við þessum óskum Seltjarnarnesbæjar.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laganna er hlutur Ríkisútvarpsins 25% og hlutur Seltjarnarnesbæjar 1% af rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Í frumvarpi til laga um Ríkisútvarpið hf., sem felur í sér endurskipulagningu á rekstri Ríkisútvarpsins, er á því byggt að fella úr gildi framangreinda lagaskyldu um þátttöku Ríkisútvarpsins í rekstrarkostnaði hljómsveitarinnar. Hann er áætlaður 123 millj. kr. á þessu ári. Samkvæmt 1. gr. frumvarpsins er því lagt til að b-liður 1. mgr. 3. gr. gildandi laga falli brott en í stað þess verður hlutur ríkisins í rekstrarkostnaði hljómsveitarinnar aukinn sem þessu nemur samkvæmt a-lið 1. mgr. 3. gr., þ.e. úr 56% í 82%. Jafnframt er lagt til að d-liður 1. mgr. 3. gr., varðandi greiðsluskyldu Seltjarnarnesbæjar, falli brott samkvæmt framansögðu. Í samræmi við þessa breytingu er eðlilegt að Ríkisútvarpið eigi ekki lengur fulltrúa í stjórn hljómsveitarinnar. Því er lagt til í 2. gr. frumvarpsins að menntamálaráðherra tilnefni mann í stjórnina samkvæmt 1. málslið 4. gr. gildandi laga í stað Ríkisútvarpsins eins og nú er.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til menntamálanefndar og 2. umr.