132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Skipun nefndar um stöðu verknáms.

[13:42]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég skal svo sem ekki fara í einhvern dilkadrátt með þá sem sitja í þessari nefnd þannig lagað séð. En það kæmi mér hressilega á óvart ef maður skoðaði nánar hverjir eru í nefndinni að þar væri ekki að finna einhvern innvígðan og innmúraðan sjálfstæðismann. Það kæmi mér mjög á óvart. Og reyndar hygg ég að það sé þannig — kannski að einhverjir í þingflokki Sjálfstæðisflokksins geti staðfest það hér og nú að þarna séu á ferðinni einhverjir fulltrúar annars stjórnarflokksins.

En í nefndinni er einn fulltrúi Framsóknarflokksins — það er vitað og sannað að hann er framsóknarmaður. Það er náttúrlega þingflokksformaður Framsóknarflokksins, Hjálmar Árnason. Ég ætla ekkert að kasta neinni rýrð á það. Það er alveg rétt að hann hefur mikla reynslu af skólastjórn og menntamálum og eflaust ekki nema gott eitt um það að segja. Ég hygg þó að það hefði verið betri bragur á þessu máli ef hæstv. menntamálaráðherra hefði skipað þó ekki væri nema einn fulltrúa stjórnarandstöðunnar í nefndina án tilnefningar eins og segir í fréttatilkynningu frá menntamálaráðuneytinu.

En það er einu sinni svo að það er plagsiður hjá öðru ráðuneyti a.m.k., sem er sjávarútvegsráðuneytið — og þar fylgist ég nokkuð grannt með verkum manna — að þegar menn hafa verið að skipa í nefndir og ráð til að skoða hina og þessa hluti þá hafa ráðherrar, bæði fyrrv. hæstv. sjávarútvegsráðherra og núverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra, verið mjög duglegir við að skipa eingöngu fólk í nefndir og ráð sem búið er að gangast undir þá pólitík sem hér er í gangi í fiskveiðimálunum, í nýtingarmálum og í fiskveiðistjórnarmálum. Andstæðingar kvótakerfisins fá aldrei setið í neinum nefndum á vegum þess ráðuneytis. Það held ég að sé nokkuð víst.

En hvað um það? Svona er þetta. Við breytum þessu að sjálfsögðu um leið og við verðum búin að skipta stjórnarflokkunum út. Þá munu renna upp nýrri og betri tímar.