132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Matvælarannsóknir hf.

387. mál
[14:20]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er misskilningur hjá hæstv. forsætisráðherra að um eiginlegar rannsóknir sé að ræða, grunnrannsóknir, hjá þessum fyrirtækjum á Ísafirði og Akureyri. Hér er fyrst og fremst um þjónustuefnagreiningar að ræða. Það er allt annar hlutur og mér sýnast einmitt þessi hugtakavíxl koma skýrt fram í máli hæstv. ráðherra, munurinn á grunnrannsóknum og síðan á þjónustuefnagreiningum.

Við erum hér einnig að fjalla um ákveðna öryggisþætti í matvælaeftirliti og þeim efnum eins og ráðherra kom inn á. Þessi ofurtrú á hlutafélagsformið tröllríður samfélaginu, sérstaklega hjá þessari ríkisstjórn, og ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Er ætlunin að þetta hlutafélag eigi að fara að skila arði? Hlutafélög eru stofnuð til að skila eigendum sínum arði. Hlutafélög eru stofnað til að geta selt þau. Hlutafélög eru stofnuð til að þau greiði skatta af starfsemi sinni. Sá er megintilgangurinn með því að stofna hlutafélög. Eiga öll þessi atriði við þetta fyrirtæki sem hér er verið að stofna? Er ætlunin að búa það undir sölu? Er ætlunin að krefja það um arð? Er ætlunin að láta þau greiða skatt eða er þetta rannsókna- eða þjónustustofnun við mennta- og atvinnulíf í landinu?