132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Stjórn fiskveiða.

353. mál
[17:34]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Hjálmar Árnason sagði áðan að það væri rétt að létta áhyggjum af hv. þingmanni, þeim sem hér stendur. Ég heyrði líka að hv. þm. Jóhann Ársælsson sagði að það væri óþarfi fyrir hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson að hafa sérstakar áhyggjur. Ég þakka góðan hug þingmanna til mín hvað það varðar að valda mér ekki of miklum áhyggjum af kvótakerfinu. Ég hef vissulega mínar áhyggjur af því en ég geri mér grein fyrir því að þegar við þingmenn stjórnarandstöðunnar tölum um að fara út úr þessu kerfi tölum við fyrir daufum eyrum stjórnarliða held ég, því miður. Þess vegna er það mín niðurstaða, hæstv. forseti, og ég vona að hið sama eigi við um hv. þm. Jóhann Ársælsson, að þessu kerfi verði aðeins breytt með því að fella núverandi ríkisstjórn og leyfa nýjum mönnum að takast á við að vinna sig út úr því.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að það er vel hægt að vinna sig út úr þessu kerfi. Það þarf hins vegar að gera þannig að menn setji á það eitthvert skipulag og feti sig rétta slóð. Það er jú búið að flækja þetta mál fram og til baka og þessi kvótasetningarferð okkar Íslendinga hefur verið farin í mörgum skrefum. Ég held ég geri það mér til ánægju og öðrum til hugarhægðar að rekja það örlítið nánar en hv. þm. Jóhann Ársælsson gerði hér áðan.

Við byrjuðum þessa vegferð kvótanna með því að kvótasetja innfjarðarrækju, var það ekki? Það var það fyrsta sem við gerðum, ef ég man rétt. Síðan humar. Svo komu síldarkvótar, þ.e. í Íslandssíldinni. Það var nú svo skrýtið með þessar þrjár úthlutanir að þær byggðust nánast allar á því að úthluta nánast jafnt á hvert skip — síldarkvótarnir voru jafnir, rækjukvótarnir voru nokkurn veginn jafnir, alla vega framan af, og ég held, þó að ég muni það ekki alveg 100%, að humarkvótarnir hafi verið nokkuð jafnir. Kvótar á hörpuskel voru jafnir þegar þeir voru settir á eftir svæðum, jafnir á bátana hvar sem þeir voru að veiða. Loðnukvótarnir voru í upphafi ekki allir settir eftir veiðireynslu, þeir voru að hluta til settir jafnir ef ég man rétt.

Þetta voru nú kvótar sem settir voru á áður en við tókum upp hið almenna kvótakerfi, sem við köllum svo, árið 1983. Þetta voru eiginlega forverar kvótakerfisins. Innfjarðarkvótakerfið í rækjuveiðum var fundið upp af heimamönnum á hverjum stað, ef ég man þá sögu rétt. Síðan voru sett sérstök lög um löndun á þeim afla sem tengdist verksmiðjum og öðru slíku, allt til að tryggja atvinnu og jafna afkomu fólks í byggðunum. Þannig var það nú.

Svo kom stóra stökkið út úr hræðslukastinu 1983 þegar þorskstofninn átti að vera að hrynja og spáð var að við mundum veiða 200 þús. tonn á árinu 1984. Við veiddum 285 þús. tonn minnir mig árið 1983 og við veiddum nánast sama afla á árinu 1984 þegar upp var staðið, heldur meira. Hræðslukastið sem fiskifræðingar ollu þjóðinni, með því að láta í það skína að farið yrði niður í 200 þús. tonn og jafnvel minna, haustið 1983 var í raun og veru óþarft. En í ljósi þeirrar spár var tekið hér upp kvótakerfi á sjö botnfisktegundum; það var þorskur, það var ýsa, það var ufsi, það var karfi, það var grálúða, það voru skarkoli og það var steinbítur. Reyndar fór sú göfuga fisktegund steinbíturinn inn og út úr kvótakerfinu, var tekin út úr því aftur og var utan kvótakerfis í fjöldamörg ár — sá virðulegi fiskur steinbíturinn, afkomumöguleiki okkar Vestfirðinga, varð ekki fyrir neinum skaða af þeirri fjarveru, þ.e. að vera utan kvótakerfisins. Það virtist vera allt í lagi með jafnvægið í veiðunum á þeim tíma.

Kola og steinbít var úthlutað sem sérstakri uppbót fyrir þá sem urðu fyrir mestri þorskskerðingu á árinu 1984 og það var auðvitað þannig að þau svæði sem voru háðust þorski og byggðu afkomu sína að langmestu leyti á honum, eins og vertíðarsvæðin t.d. frá Vestmannaeyjum og Hornafirði — þó að Hornafjörður hefði mikla möguleika í ýmsu öðru eins og síld og humri sem Vestmannaeyingar höfðu reyndar líka. En svæði eins og Vestfirðir t.d., sem áttu 70% af sínum tekjum í veiðireynslu þorsks, urðu fyrir afar miklu höggi þegar þetta var gert þó að uppbætur kæmu í kola og steinbít á tímabili. Menn lentu því í talsverðum erfiðleikum og sérstaklega þegar þessu var svo fram haldið. En til þess að gefa mönnum ákveðna aðlögun — og þá til hvers? til þess að jafna aðkomu manna — var sóknarmark sett við hliðina. Enginn veinaði þá um að það væri óréttlátt að leyfa mönnum að laga sína stöðu og það gerðu menn hiklaust sem voru í lökustu stöðu — þeir vildu sóknarmarkið og löguðu sína stöðu og fengu síðan úthlutað út á sóknarmarksreynsluna sína á árinu 1990 þegar allt var kvótasett.

Það er því algjörlega rétt hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni að mörgum sinnum hefur verið úthlutað alls konar viðmiðunum og alls konar reynslu og ekki bótaréttur þess vegna — ég var ekki að víkja að því út af áhyggjum sem slíkum. Ég vék að því vegna þess að við sem hér erum, þessir 63, eigum að vera gæslumenn ríkissjóðs og þess vegna vék ég að því að menn skoðuðu þetta.

Á þessum árum, 1983 og 1984 og alveg fram til 1986, 1987 held ég, voru hér norðursvæði og suðursvæði. Á það spiluðu útgerðarmenn alveg stórkostlega, þeir sem klókastir voru. Ég held að ég halli ekki á neinn þó að ég segi að Samherjamenn hafi verið klárastir í því að spila á það að kaupa sér kvótalítil skip á suðursvæði og færa þau inn á norðursvæði og fá úthlutað meðalkvóta, sem var þá 600 tonnum hærri í þorski en var á suðursvæði, og fara síðan yfir í sóknarmark jafnvel árið eftir og fá þá 20% ofan á meðalkvótann og vinna sér þannig inn reynslu sem þeir fengu svo úthlutað árið 1990 þegar allir voru settir í kvóta. Ég get því alveg rakið sögu margra útgerðarmanna þar — hvað þeir hafa fengið út úr hinum einstöku kerfum þegar þeim datt í hug að spila á kerfið. Sumir kölluðu þetta að spila á kerfið, aðrir kölluðu þetta að vinna með kerfinu — hafa stundum sagt við Vestfirðinga að þeir væru svo mikið á móti kerfinu að þeir hefðu ekki getað unnið með því. En það er nú ekki alveg rétt, sumir unnu með því á Vestfjörðum og tóku síðan út helling af peningum þegar þeir seldu sína aflareynslu eins og frægt er.

Svo komu sandkoli, skrápflúra og langlúra inn í kvótakerfið, sérstaklega hér við suðurströndina fyrir snurvoðarbáta, m.a. frá Þorlákshöfn og Vestmannaeyjum og fleiri stöðum. Seinna fundu menn sólkolann sem sérstakan meðafla sem ástæða væri til að taka inn í kvótakerfið — þó að aldrei fiskist nú af honum nema svona rétt rúmlega þúsund tonn á ári þá skal hann vera þarna inni heilagleikans vegna. Það er nauðsynlegt.

Svo komu keilan og langan, hún var sett þarna inn. En áður en það gerðist settu menn skötuselinn inn sem sérstaklega var búin til reynsla af hérna af tveimur, þremur útgerðarstöðum. Og núna hagar svo til, hæstv. forseti, að hlýnað hefur í sjónum við Norðurland, Vestfirði og Austfirði og skötuselsfjandinn er farinn að synda hringinn í kringum landið og veiðist á stöðum þar sem hann átti alls ekkert að veiðast og engin veiðireynsla er til af. Þá verða menn auðvitað að leigja veiðiréttinn af þeim sem hann fengu út á veiðiréttinn hér sunnanlands.

Síðan voru tíu tonna bátar settir í kvóta, sex tonna bátar settir í kvóta og handfærakvótinn var síðan búinn til. Úthafskarfinn var settur í kvóta, rækjan á Flæmingjagrunni var sett í kvóta — við erum þar einir þjóða með kvóta, allir aðrir veiða þar á sóknarkerfi. Barentshafsaflinn var settur í kvóta og rétti okkar í Smugunni breytt í kvótakerfi í Barentshafi, norsk- íslenska síldin var sett í kvóta, eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson vék að áðan, og síðast settum við kolmunnann í kvóta. Þá held ég að það sé svona nokkurn veginn upp talið sem við erum búin að afreka að setja í kvóta en þó kann vel að vera að eitthvað sé eftir. Ég held samt að gulllaxinn og blálangan séu enn þá utan kvóta. Nú stendur til að ég fái í nefið, hæstv. forseti, og lýk ég nú máli mínu.