132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Auglýsingar kringum barnatíma í sjónvarpi.

294. mál
[12:18]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Í nóvembermánuði sl. kom fram í fréttum frá umboðsmanni barna að hún sagði að sér bærust margar kvartanir og ábendingar um að auglýsingar sem höfða eiga til barna og sýndar eru í sjónvarpi í kringum barnatíma séu ótilhlýðilegar. Sumir foreldrar hafa kallað eftir því að tilteknar auglýsingar væru bannaðar, t.d. þær sem auglýsa sætindi og óhollt fæði.

Á Stöð 2 í nóvember sl. kom eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Umboðsmaður barna telur rétt að banna auglýsingar í kringum barnatíma í sjónvarpinu. Fram hafa komið auglýsingar sem hann telur brjóta í bága við lög, og aðrar sem eru á mörkum þess siðlega. Auglýsendum ber samkvæmt lögum að sýna varkárni vegna trúgirni barna. Auglýsingar sem beinast beint að börnum hafa orðið sífellt algengari undanfarin ár. Umboðsmaður barna segir að af og til komi fram auglýsingar, sem ganga svo langt að þær hljóti að brjóta hreinlega í bága við útvarpslög og lög um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum.“

Orðrétt var haft eftir umboðsmanni barna, með leyfi forseta:

„Ég vil miklu frekar skoða það hvort við ættum búa til eins og Svíar og Norðmenn gera, reglur sem segja að fyrir og eftir barnaefni eða efni sem er sérstaklega er ætlað yngstu börnum að þá séu engar auglýsingar.“ Benti umboðsmaður á að Svíar og Norðmenn væru með ákvæði í lögum sínum þar sem segir annars vegar að auglýsingar sem beinast að börnum yngri en 12 ára séu bannaðar og hins vegar að auglýsingar í kringum barnaefni í sjónvarpi séu bannaðar. Umboðsmaður taldi tímabært að væri orðið að taka upp umræður í samfélaginu um hvernig auglýsingum og markaðssetningu gagnvart börnum væri háttað og spurði hvort við vildum hafa þetta svona eins og það virðist vera að þróast eða hvort við vildum breyta einhverju.

Einnig var haft eftir umboðsmanni að ung börn hefðu ekki þroska til að átta sig á því að um er að ræða auglýsingar og verið væri að nýta sér trúgirni þeirra og þroskaleysi eða reynsluleysi.

Umboðsmaður barna setti líka fram í því viðtali sem ég vitnaði til að kannski þyrfti að framfylgja þessum reglum sem við þó höfum, betur en við gerum, en um þetta eru mjög skýr ákvæði bæði í samkeppnislögum og útvarpslögum en þar segir í 20. gr. varðandi vernd barna gegn ótilhlýðilegum auglýsingum, með leyfi forseta:

„Útvarpsauglýsingar skulu þannig gerðar og fluttar að þær valdi ekki börnum siðferðilegum eða líkamlegum skaða. Í útvarpsauglýsingum er óleyfilegt að: hvetja börn til þess að kaupa vöru eða þjónustu með því að notfæra sér reynsluleysi þeirra eða trúgirni.“ Sambærileg ákvæði eru í reglugerð um útvarpsefni.

Því hef ég leyft mér að beina fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra:

1. Ætlar ráðherra að bregðast við því áliti umboðsmanns barna að rétt sé að banna auglýsingar kringum barnatíma í sjónvarpi?

2. Er ráðherra reiðubúinn að beita sér fyrir því að komið sé í veg fyrir slíkar auglýsingar?

3. Er ráðherra sammála umboðsmanni barna um að fram hafi komið auglýsingar sem brjóti í bága við lög og aðrar séu á mörkum þess siðlega?