132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Akstur undir áhrifum fíkniefna.

292. mál
[13:28]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er athyglisvert sem fram kom hjá hv. þingmanni. Ég tel sjálfsagt að skoða það allt saman í þingnefndinni sem fær umferðarlagafrumvarpið til umfjöllunar þegar ég hef mælt fyrir því.

Hér þarf að hafa í huga réttindi einstaklingsins. Þess vegna stendur til að setja þessi ákvæði í lög að skýrt sé hvaða heimildir eru til staðar fyrir lögreglu, annars vegar til blóðrannsókna og síðan til að taka svokölluð munnvatnssýni. Sú framkvæmd er talin standast allar kröfur um öryggi sem skiptir mjög miklu máli. Ég tel að varðandi þessa plástraaðferð þurfi að ganga úr skugga um að hún sé örugg. Ég tel mikilvægt að í þessu skeiki engu, að þetta sé öruggt bæði fyrir lögregluna og þá sem þurfa að sæta slíkri rannsókn. En hinn endanlegi dómur, ef þarf að meta slíkt, er blóðrannsóknin sem væntanlega er óyggjandi.

Við erum hins vegar sammála um það, ég og hv. fyrirspyrjandi, að mikilvægt er að hafa framkvæmdina á þessu trausta, örugga og umfram allt í þágu umferðaröryggis. Við eigum að leita allra leiða til að tryggja öryggi í umferðinni. Allt of mörg slys verða m.a. vegna neyslu ávana- og fíkniefna.