132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Vinnsla skógarafurða.

278. mál
[14:16]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. landbúnaðarráðherra um vinnslu skógarafurða. Hún er í tveimur liðum:

1. Hvað hafa landbúnaðarráðuneytið og undirstofnanir þess gert til að undirbúa þróun og vinnslu afurða úr ört vaxandi nytjaskógum landsins?

2. Hve miklu fé hefur verið varið til að undirbúa nytjar þess efnis sem gert er ráð fyrir að falli til hjá þeim nytjaskógræktarverkefnum sem þegar eru komin af stað?

Hæstv. forseti. Fyrir skömmu barst svar frá hæstv. ráðherra við fyrirspurn minni um grisjun þjóðskóganna. Það er alveg ljóst að þjóðskógarnir sem slíkir eru komnir á aldur og þurfa mikillar grisjunar við. Í þeim einum ætti því að falla til mikið efni á næstu árum ef farið er myndarlega í grisjun. Hin miklu skógræktarverkefni, nytjaskógarnir, eru á því stigi að enn er verið að planta og verður svo næstu árin. Það er komið að fyrstu grisjun í elstu skógunum og samkvæmt áætlun mun upp úr 2018 verða mjög stórt stökk í þessu ferli, þarf þá að koma til mjög aukin grisjun frá því sem nú er. Þá verður langstærsta stökkið og helst svo upp frá því.

Það skiptir ekki eingöngu máli, hæstv. forseti, að uppfylla það markmið að klæða 5% landsins skógi og endurheimta skóg heldur skiptir líka máli að leggja til vinnu og styrkja byggð. Hvað nytjaskógarverkefnin varðar finnst mér skorta á að hugað sé að því hvernig á að nytja þær afurðir sem falla til við grisjun og í beinu framhaldi af því hvernig á þá að nytja þær afurðir sem verða til við ræktun skóganna, þó að það komi ekki fram í þessari fyrirspurn.

Því lagði ég þessa fyrirspurn fram að mikil verðmætasköpun gæti legið í skógarafurðunum en í byggðaáætlun er með einni setningu beint vísað til þess að það eigi að líta til þróunar og nýsköpunar hvað varðar skógarafurðir en síðan ekkert meir.