132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[11:08]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hér ber allt að sama brunni. Hæstv. ráðherra gekk fram fyrir skjöldu í síðasta mánuði, viðurkenndi eigin misskilning og sagði í viðtölum í fjölmiðlum að það hefði orðið misskilningur varðandi flutning þessa máls sem hún gæti kennt sjálfri sér og ráðuneytinu um. Hún sagði að þau, þ.e. hún og ráðuneytið, hefðu ekki gefið nægilega skýrar upplýsingar til nefndarinnar, til iðnaðarnefndar Alþingis og til Alþingis. Mér sýnist því málið þannig vaxið að hefja þurfi 2. umr. um það á nýjan leik. Ég held að hæstv. ráðherra þurfi að mæta fyrir iðnaðarnefnd, skýra málið upp á nýtt til að nefndin fái tækifæri til þess að búa til nýtt nefndarálit. Það bull sem er í skjölum nefndarinnar núna byggist á röngum upplýsingum sem ráðherrann er búin að viðurkenna að hafa gefið. Ég óska eftir því að það verði samþykkt að málið verði aftur tekið inn í nefndina og við fáum nýja 2. umr.