132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[17:13]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Án þess að ég vilji nokkuð um það fullyrða tel ég að þarna sé á ferðinni lagatæknilegt álitamál þar sem um er að ræða breytingartillögur iðnaðarnefndar. Annars vegar er vísað til frumvarps ríkisstjórnarinnar og hins vegar er vísað til laganna eins og þau standa núna. Þetta eru mál sem þarf greinilega að taka til skoðunar.

Hæstv. forseti. Ég vil fyrir hönd þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs óska formlega eftir því að hlé verði gert á þessum fundi og umræðan ekki tekin upp að nýju fyrr en eftir helgi þannig að okkur gefist ráðrúm til að skoða það sem við teljum vera lagatæknileg álitamál sem upp eru komin vegna þeirrar breytingartillagna sem hafa verið lagðar fram. Og einnig til hins og það er hinn lýðræðislegi þáttur í þessu máli sem snýr að vinnubrögðum, að okkur í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gefist tóm til að fara í saumana á málinu og átta okkur á því hvað snýr upp og hvað snýr niður eftir þennan kostulega dag sem hófst á því að hæstv. iðnaðarráðherra sem talaði fyrir málinu lýsti því yfir að hún hefði farið með rangt mál fyrr við umræðuna. Er til of mikils mælst að við fáum ráðrúm til að gaumgæfa þessa hluti? Er til of mikils mælst? Eða ætla menn virkilega að keyra þessa umræðu áfram með ofríki þvert á það sem við teljum vera réttmætar óskir? Málefnalegar réttmætar óskir.