132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[16:19]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hversu lengi varir sú stefna ríkisstjórnarinnar? Sú kúvending hefur orðið í einkavæðingarmálum af hálfu ríkisstjórnarinnar að við stöndum nú frammi fyrir hlutafélagavæðingu RÚV. Fyrir nokkrum mánuðum var það alls ekki á dagskránni að hlutafélagavæða RÚV. Alls ekki. Meira að segja flokkssamþykktir Framsóknarflokksins gengu út á að það skyldi alls ekki gera. Og hversu langt verður þá þangað til að ríkisstjórnin verður líka búin að breyta í þessu máli? Eftir að hlutafélagavæðingin er komin fram og búið að hlutafélagavæða ræður ráðherra í rauninni ekki miklu um framvindu þegar einkavæðingarvagninn er farinn af stað.

En ég vil spyrja ráðherra hér. Nú hafa komið erindi frá öðrum veitum. Frá Norðurorku, sem ég þekki til. Frá Skagafjarðarveitum. Ósk um að fá að kaupa hlut Rarik á viðkomandi svæðum inn í sínar veitur. Skagfirðingar vildu gjarnan fá að kaupa Rafveitu Sauðárkróks og hafa reyndar líka sett fram ósk um að kanna kaup á verkefnum Rarik í héraðinu. Norðurorka hefur líka óskað eftir því. Þegar nú er verið að fara út í umbyltingu á Rarik, hlutafélagavæða, búa það undir sölu. Er það ekki rétt, frú forseti, að hæstv. ráðherra svari þessum aðilum og það verði kannað hvort t.d. þessir aðilar og ef til vil fleiri geti leyst til sín eignir Rarik á svæðinu og styrkt og eflt sínar veitur? Þetta finnst mér vera lykilspurning.