132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[17:08]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skil mjög vel að leiðir hafi skilið á milli hv. þingmanns og Framsóknarflokksins miðað við þær ræður sem hann flytur á hv. Alþingi.

En af því að hann nefndi þriggja fasa rafmagn og mikilvægi þess fyrir sveitir landsins ætla ég koma inn á svar sem ég gaf til Alþingis. Þar kemur fram að á síðasta ári varð mikil aukning hvað varðar þriggja fasa rafmagn og lagningu þess. Ef við förum aftur til ársins 2001 eru 90 nýir aðilar sem fá þriggja fasa rafmagn, 2002 178, 2003 133, 2004 91 og 2005 169. Á árinu 2005 varði Rarik um 650 millj. kr. til að styrkja og endurnýja lagnir í sveitum.