132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[18:11]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst vil ég koma inn á atriði sem fram kom hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur varðandi það að við hefðum getað farið út í aðra atvinnustarfsemi. Það er hárrétt og það kom einmitt fram á ráðstefnunni á föstudaginn hjá Samtökum atvinnulífsins. Vinstri öflin vildu að við færum út í niðursuðu, að selja Rússum niðursoðna síld. Það voru atvinnutækifærin á þeim tíma og hefði skilað miklu í þetta þjóðfélag eða hitt þó heldur.

Varðandi raforkutaxta til tiltekinna fyrirtækja hér er mér auðvitað ómögulegt að svara þeirri spurningu þar sem ég hef ekki þær forsendur sem til þarf til að huga að raforkutöxtum. Mér er það fullkomlega ljóst og þekki það af eigin reynslu að notkunarmynstur hvers fyrirtækis í landinu er mjög mismunandi. Eftir því sem mynstrið líkist meir álfyrirtækjunum, þ.e. að þau noti raforkuna 24 tíma sólarhrings allt árið, því ódýrari verður raforkan. Því hærri spennu sem viðkomandi kaupir, því minni kostnaður sem er við að spenna niður minni orkutöp því ódýrari verður raforkan. Það eru því margar forsendur sem þarf að skoða fyrst áður en hægt er að svara þessu. Það er í raun ekki boðlegt að bera slíkar tölur upp án þess að rökstyðja þá þætti sem liggja að baki raforkuverðinu og þeirri verðlagningu sem á sér stað.