132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[14:13]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason hefur bæði nú við 3. umr. en þó sérstaklega við 2. umr. þessa máls farið mjög vel yfir sviðið og skýrt frá því hvers vegna Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur sitt af mörkum til að stöðva þetta frumvarp. Við höfum fært fram mörg og gild rök til að fá þingheim og þingmenn til að endurskoða afstöðu sína til frumvarpsins þrátt fyrir þær breytingartillögur sem hér hafa verið gerðar og lagðar fram. Við höfum farið yfir málið og skýrt frá því hvaða grunn við teljum að þarna vanti til að fara í frekari rannsóknir á auðlindum í jörðu á vatna- og háhitasvæðum til frekari uppbyggingar álvera hér á landi, þ.e. lagaumgjörðina, einhverja heildarsýn, vatnalögin og verndunarsjónarmiðin. Frumvarp sem hér var lagt fram um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum fékk falleinkunn eða það mikla gagnrýni að ekki var hægt að afgreiða það á síðasta þingi. En svo mikið hefur legið við að koma rannsóknum á laggirnar til frekari raforkuvinnslu fyrir áframhaldandi stóriðju hér á landi að taka varð ákveðna þætti út úr til að knýja vagninn áfram.

Hæstv. forseti. Ég er alveg sannfærð um að til lengri tíma litið þá erum við að skjóta okkur í fótinn. Við höfum ekki heildarsýnina. Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma hefur dagað uppi. Sá rammi er ekki til staðar til að veita okkur leiðbeiningu sem við þurfum inn í framtíðina um hvaða svæði við ættum að vernda sem ósnortin, hvaða vatnasvið við ættum að vernda sem ósnortin og hvaða háhitasvæði við ættum að vernda sem ósnortin. Við höfum ekki náð sátt um þetta og á meðan við látum vaða í bestu virkjunarkostina fyrir stóriðjuna — því að stóriðja sem slík krefst annars konar orkuöflunar en almennur iðnaður — þá tel ég að við séum að skjóta okkur í fótinn, að við séum að fórna meiru fyrir minna til framtíðar litið. Það verður ekki alls staðar aftur snúið.

Vísað var til þess að við stundum sjálfbæra orkunýtingu. Það er ekki rétt. Hún er sjálfbær að vissu marki og ákveðnar orkuveitur eru það sannarlega. Háhitasvæðin gætu verið það, við vitum það ekki, það vantar rannsóknir til að byggja á til að fara í eins mikla uppbyggingu og á að gera. Við teljum að það sé í lagi en við vitum það ekki. Eitt vitum við þó með háhitasvæðin, að það er hægt að taka þau mannvirki niður sem munu skilja svæðin eftir lítið röskuð að við teljum. En hvaða áhrif þetta hefur á vatnsbúskapinn, á það sem er að gerast í jarðskorpunni vitum við ekki nægilega vel. En við vitum að það er hægt að fá mikla orku frá háhitasvæðunum og við vitum líka að það er hægt að nýta hana miklu betur en við gerum með núverandi áformum. Ég tel að við séum í ákveðnu gönuhlaupi, að við séum hugsanlega að fórna meiru fyrir minna.

Hæstv. iðnaðarráðherra sagði rétt áðan að hún talaði hér sem iðnaðarráðherra en ekki umhverfisráðherra þegar var kallað var: Hvar er umhverfisráðherra eða hvar eru umhverfissjónarmiðin? Nýtingarsjónarmiðin til orkuöflunar eru gegnumgangandi í frumvarpinu. Verndunarsjónarmiðin eru ekki til staðar og sú hugsun er ekki inni að hugsanlega mundu bæði þau vatnasvið og háhitasvæði sem ráðast á í vera þjóðinni verðmætari til annarra nota, eins og hluti af ímynd landsins til að laða hér að ferðamenn, til þess að geta verið sú náttúruauðlind sem við teljum okkur byggja á. Það er mjög auðvelt að skaða ímynd landsins og þarf oft ekki mikið til. Danir upplifa það núna með einni myndbirtingu í dönsku blöðunum þar sem var teiknuð mynd af trúarleiðtoga múhameðstrúarmanna. Dönum fannst þetta ekki mikið mál en þetta særði trúarvitund milljóna manna um allan heim sem aðhyllast þessa trú og nú bitnar þessi eina myndbirting á Dönum.

Ég er ekki að segja að eitthvað svipað muni koma fyrir Íslendinga með því að halda áfram í þessa veru, að halda áfram að uppfylla nýtingarsjónarmið til stóriðjunnar, en óvarlega stigið skref eins og með Kárahnjúkavirkjun getur sannarlega komið niður á ferðaþjónustunni, áframhaldi á uppbyggingu hennar og þeirri ímynd sem við erum að skapa.

Hæstv. forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur brugðið sér frá en mér finnst mikilvægt miðað við þá breytingu sem samþykkt var í gær á frumvarpinu — hæstv. iðnaðarráðherra er komin í salinn og óska ég eftir því að hún svari nokkrum spurningum áður en lengra verður haldið, hugsanlega ekki í þingsal því það er augljóst að mikill meiri hluti er fyrir því að afgreiða frumvarpið með þeim breytingum sem voru gerðar á því í þessari viku, en eftir er ósvarað þeim áhyggjum sem við hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs berum í brjósti um hvaða rannsóknarleyfum hæstv. ráðherra muni úthluta á næstu dögum og mánuðum. Samkvæmt þeirri breytingartillögu sem búið er að samþykkja og er komin í frumvarpið um að setja eigi á laggirnar nefnd til að móta þær reglur sem ráðherra ber að fara eftir til að úthluta rannsóknarleyfum. Sú nefnd á að skila af sér í septembermánuði.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem við hv. þingmenn höfum og lagðar voru fram í iðnaðarnefnd um fyrirliggjandi umsóknir um rannsóknar-, nýtinga- og virkjunarleyfi eru þær frá Landsvirkjun, Hitaveitu Suðurnesja, Orkuveitu Reykjavíkur, Rarik, Héraðsvötnum hf., Þeystareyki ehf. og Orkubúi Vestfjarða. Þetta er á mismunandi svæðum, m.a. vatnasviði Vestari- og Austari-Jökulsár í Skagafirði, leitar- og rannsóknarleyfi á Gjástykki og nágrenni og tveir aðilar hafa óskað eftir því að komast í vatnasvið Austari- og Vestari-Jökulsár í Skagafirði.

Nú er ekkert sem hindrar það að hæstv. ráðherra fari að úthluta rannsóknarleyfum. Það eru engar reglur um það hvaða fyrirtæki hún velur til að úthluta leyfunum. Hæstv. ráðherra hefur frjálst val með það og nú er þeirri hindrun rutt úr vegi sem fyrir var hvað varðar rannsóknir til vatnsaflsvirkjana sem ekki var til staðar hjá hitaveitum, þ.e. að með frumvarpinu munu þeir aðilar sem fara í rannsóknir á vatnasviði fá kostnaðinn greiddan hvort sem þeir fá nýtingar- og virkjunarleyfi eður ei. Nú geta því þessi fyrirtæki farið í rannsóknir án þess að taka nokkra áhættu. Ég tel að þeirri hindrun sem fyrir var í kerfinu sé rutt úr vegi.

Auglýsing er nú borin í hvert hús á Norðurlandi þar sem allir íbúar Norðurlands eru boðnir velkomnir á opna kynningarfundi um álver þar. Hv. þm. Jón Bjarnason las upp úr þessum kynningarbæklingi en fyrirhugaðir eru þrír fundir. Sá fyrsti er í kvöld og svo 1. og 2. febrúar á Akureyri, Húsavík og Skagafirði. Áætlað er að undirbúa og skoða fjóra staði upp á staðsetningu á nýju álveri á Norðurlandi. Rannsóknir hljóta því að þurfa að fara í gang úr því að verið er að kynna frekari hugmyndir um að setja niður álver á þessu svæði. Það er því ekki til setunnar boðið. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra og vonast til að hún svari því hér: Mun hæstv. ráðherra úthluta rannsóknarleyfum á næstu mánuðum eða á því tímabili þar til hæstv. ráðherra verða settar reglur um hvernig beri að velja aðila til að úthluta leyfum?

Mér finnst mjög mikilvægt að þetta komi fram og öllum vafa rutt úr vegi. Ég tel mikilvægt að hæstv. ráðherra bíði með úthlutun leyfa þar til reglurnar liggja fyrir. Það verður ekki til að bæta gráu ofan á svart ef tímabilið sem ráðherra hefur frjálst verði notað til að úthluta leyfum til hægri og vinstri þannig að það verði lítið annað að gera en láta undan þeim þrýstingi sem orkufyrirtækin beita í dag sem eðlilegt er. Næsta tímabil er þeim mjög mikilvægt, að komast í rannsóknirnar sem nær gulltryggja áframhaldandi vinnslu á meðan við höfum einhvern kvóta eftir samkvæmt Kyoto-samkomulaginu. Hann er að verða uppurinn og er kominn fram úr þessum áætlunum ef villtustu draumórar um stóriðju á Íslandi ganga eftir. Fram að þessu hafa fyrirtækin ekki verið látin greiða fyrir þann kvóta sem þau þurfa, þá mengun sem þau valda. Íslenska ríkið hefur tekið alfarið á sig og það er auðvitað mjög mikilvægt fyrir öll ný fyrirtæki á þessum markaði sem vilja koma sér inn að komast undir þá regnhlíf sem er í dag, að þurfa ekki að borga neinn mengunarkvóta. Að sjálfsögðu er einnig mjög mikilvægt fyrir þau að komast að núna meðan núverandi ríkisstjórn situr sem hefur þá atvinnustefnu að halda áfram stóriðjuframkvæmdum og ekkert lát virðist vera á.

Hæstv. forseti. Ég taldi að allar þær blikur væru á lofti sem vöruðu okkur, sama hvar í flokki við stæðum, við að halda áfram þessum gegndarlausu stóriðjuframkvæmdum sem hafa verið í gangi með tilliti til þeirra aðvarana sem blika í efnahagskerfinu vegna þess að það er svo óljóst hvernig Kárahnjúkavirkjun kemur út að lokum. Ég hefði talið skynsamlegt í alla staði að hinkra núna og leyfa efnahagskerfinu að kólna eins og flest fyrirtæki sem stunda hér útflutning bíða eftir. Ef það þarf að ná efnahagskerfinu niður í áföngum eru þeir áfangar til og þurfa að vera tilbúnir þegar Kárahnjúkavirkjun og framkvæmdunum fyrir austan lýkur. Setja á stóraukið fé í vegaframkvæmdir og það þarf sannarlega að auka og efla rannsóknir hvað varðar jarðgangagerð og þær framkvæmdir gætu tekið við til að ná efnahagskerfinu rólegar niður í það ástand að önnur atvinna geti blómstrað hér á landi.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa orð mín lengri. Ég gæti lesið upp og minnt á umsögn Orkuveitu Reykjavíkur sem staðfestir að við upphaf málsins á þingi var farið fram með allt aðrar hugmyndir en nú er gengist við. Þetta er búinn að vera eilífur misskilningur fram og til baka. Hæstv. iðnaðarráðherra ætlaði sér að ganga miklu lengra en hún komst upp með þannig að hæstv. ráðherra getur ekki veitt þeim aðilum sem eru hér og munu stunda vatnsaflsrannsóknir vilyrði fyrir virkjanaframkvæmdum eins og til stóð. Það er eingöngu til leitunar á heitu vatni fyrir sveitarfélögin á þeim svæðum sem eru köld svæði sem hægt er að veita fyrirheit um að halda áfram virkjunarframkvæmdum eftirleiðis.

Hæstv. forseti. Fleiri þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ætla að fara yfir sjónarmið okkar og ég læt þetta duga í bili.