132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[17:47]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að hv. þingmaður ætlar að mælast til þess að fengnir verði sérfræðingar til nefndarinnar til að fara yfir málið. En ég minni aftur á að þetta er viðamesta rannsóknin sem gerð hefur verið á þessum hlutum. Það er ekki hægt að koma hér upp og segja: Já, en það er fullt af öðrum rannsóknum sem sýna allt annað. Þetta er viðamesta rannsóknin. Hún stóð í tíu ár og var gerð í sjö Evrópulöndum, Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu, Portúgal, Spáni og Svíþjóð, og náði til 650 sjúklinga og 1.500 einstaklinga. Ég hlýt að spyrja: Það hlýtur að vekja athygli og tortryggni að í greinargerð Lýðheilsustöðvar eru 74 neðanmálsgreinar, vísað er í 74 skrif um þessi mál en af hverju í ósköpunum (Forseti hringir.) var þessari rannsókn sleppt? Af hverju í ósköpunum? (Forseti hringir.) Liggur það ekki í augum uppi?