132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[18:23]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við svar mitt áðan að bæta enda var seinni ræða hv. þingmanns nánast endurtekning á fyrri ræðu hans. Ég sagði það reyndar áðan að afstaða veitingahúsaeigenda lægi fyrir. Hins vegar fyndist mér í lagi að skoða það ef þeir kæmu með tillögur, kæmu með slík sjónarmið, um einhverja undantekningu varðandi slík svæði þar sem fólk væri sannarlega sammála því að tilgangurinn með samkundunni væri reykingar fyrst og fremst. Ég á reyndar ekki von á því frá veitingamönnum. En það væri sjálfsagt að skoða það ef það kæmi fram.

Ég skil það svo að þeir hafi viljað fara þessa leið. Samþykkt á aðalfundi þeirra bendir til þess. Ég hef rekist á eina grein þar sem veitingamaður hefur komið fram með önnur sjónarmið. Hún birtist í síðustu viku. Ég get ekki skilið það öðruvísi en svo að veitingamenn séu almennt sammála um að fara þá leið sem lögð er til í þessu frumvarpi. Það skipti máli þegar ég tók afstöðu til frumvarpsins, þótt ég hafi, eins og ég sagði áðan, verið sannfærð um að heilsufarsleg rök væru gild til að fara þessa leið.

Ef þessi hugmynd kemur upp er sjálfsagt að skoða hana. Hvort það er meiri hluti á þinginu fyrir því er hins vegar annað mál.