132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Leyfi til olíuleitar.

154. mál
[13:13]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég tek undir að þetta er mjög spennandi, og mjög margir eru spenntir. Stóru olíu- og gasvinnslufyrirtækin eru í startholunum til að geta farið að vinna á þessum svæðum þar sem talið er að þessar miklu olíu- og gasbirgðir sé að finna. Því er mjög mikilvægt að við undirbúum okkur vel og ég sé að hæstv. ráðherra er með vinnu í gangi og ætlar að ljúka reglugerðarsmíðinni eftir ár. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Telur hún raunhæft að það verði búið? Hversu langt er vinnan komin? Erum við farin að huga að búnaði til að bregðast við bráðamengun sem má auðvitað búast við þótt við t.d. færum ekki í þessa leit? Sjálfsagt gerum við það samt og þá þarf að vera hægt að bregðast við fljótt ef eitthvað kemur fyrir. Hvar stendur þessi vinna hvað varðar lífríkið og ástandið á botni, öll grunnvinnan sem þarf að fara í? Eru einhverjar upplýsingar til og verðum við búin að ljúka henni fyrir árið 2007?

Mig langar að spyrja um eitt sem e.t.v. á frekar heima hjá umhverfisráðherra en þetta er svo sem allt samtengt. Það varðar aukna skipaumferð og hvernig við gætum nýtt hana í gegnum norðurskautið. Hefur ráðherra einhverjar hugmyndir um það í sambandi við hlut iðnaðarráðuneytisins? Ég vildi gjarnan fá viðbótarupplýsingar frá hæstv. ráðherra um hvað sé búið að vinna og hvað sé til af því sem hún nefndi í sambandi við umhverfisupplýsingarnar og öryggismálin, bráðamengun og slíkt.