132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Nýting vatnsafls og jarðvarma.

458. mál
[13:29]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra svör hennar hvað líður störfum við 2. áfanga rammaáætlunar. En því miður verð ég að segja að í svari sínu staðfestir hæstv. ráðherra þann grun minn að í raun sé mjög lítið að gerast og það sé þannig, reyndar verður áframhaldandi vinna við gerð áætlunarinnar. Í svari hæstv. ráðherra kemur fram að önnur áfangaskýrsla muni líta dagsins ljós í ársbyrjun 2007 og vinnunni allri ljúka áratug eftir að hún hófst, árið 2009. Samt veit enginn hvað á í raun að gera við niðurstöður þeirrar vinnu, hvaða gildi hún mun hafa og hvort nokkuð verður við hana gert. Hvort nokkuð verður við forgangsröðunina gert. Það hafa fleiri áhyggjur af þessu, hæstv. forseti, en ég, því hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerði Sverrisdóttur, hefur borist bréf frá formanni Landverndar, sem liggur á heimasíðu þeirra góðu samtaka, þar sem spurt er sérstaklega um afdrif þessa verkefnis og bent á m.a. að með því að haga 2. áfanga með þeim hætti sem nú er gert er búið að taka út alla almennu umræðu. Það er engin almenn umræða, engir opnir fundir, ekkert almennt aðhald eða upplýsingagjöf um það sem er í gangi sem þó var við 1. áfangann. Þannig er verið að rýra, ekki aðeins gildi vinnunnar að mínu áliti, heldur að klippa á öll tengslin við fólkið í landinu, við grasrótina, við fólkið sem vill hafa áhrif á hvernig þessi vinna er unnin og koma með alls konar upplýsingar.

Ég vil að lokum fá að vitna í bréfið þar sem segir, með leyfi forseta:

„Forsenda upplýstra ákvarðana um frekari orkuöflun til stóriðju er að lokið verði við gerð 2. áfanga (Forseti hringir.) rammaáætlunarinnar …“

Ég er á rauðu ljósi með tvo forseta. Ég held ég hætti bara núna.