132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Framtíð Hönnunarsafns Íslands.

265. mál
[13:57]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að lýsa yfir ánægju minni með þetta hugarfar hv. þingmanns í garð hönnunarsafnsins, að vilja koma frá sér verðmætum og áhugaverðum hlutum í hendur safnsins. Mér finnst hins vegar miður, og það er lýsandi dæmi um það, hvernig þessum málum er því miður fyrir komið í dag en að því hefur verið unnið um töluvert skeið að reyna að koma þessu í gott horf.

Viðræður um framtíð Hönnunarsafns Íslands hafa verið í gangi milli menntamálaráðuneytisins og bæjaryfirvalda í Garðabæ frá því að samningur var gerður 1998 og frá því að hann rann út í árslok 2003. Þær eru í nokkuð góðum farvegi. Það sem m.a. hefur verið litið til í viðræðunum er að Garðabær taki við rekstri og stjórn hönnunarsafnsins sem verði í framtíðinni stofnun á vegum bæjarfélagsins og miðstöð safnastarfsemi á sviði iðn- og listhönnunar.

Það sem fyrst og fremst hefur tafið samningsgerðina til þessa er hvernig standa eigi að því að koma safninu fyrir í framtíðarhúsnæði. Ég tek undir með hv. þingmanni og fleirum sem hafa lýst því yfir að hús yfir safnið þurfi að vera nokkuð sérstakt og bera líka sterk auðkenni íslenskrar hönnunar. Horft hefur verið til þess að Garðabær byggi hús sérstaklega undir þessa starfsemi. Þá er verið að huga að því hvernig núverandi húsnæði og aðstaða sem hönnunarsafnið hefur, þ.e. í Lyngásnum, kemur inn í þessar viðræður en það er húsnæði sem ríkisvaldið á og ég veit að Garðabær vill gjarnan fá. Það er verið að vinna að þessum málum, það er enn á viðkvæmu stigi en markmiðið er alveg skýrt og ég held að metnaðurinn sé sá sami sem við deilum, ég og hv. þingmaður.

Ég vil sérstaklega geta þess að ég og hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra höfum líka rætt hvort rétt sé að fari saman hönnunarsafn og hönnunarvettvangur en hönnunarvettvangurinn er mjög athyglisvert verkefni á verksviði iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Því þróunarverkefni lýkur að mig minnir í lok þessa árs og þá er ekki ólíklegt að við förum yfir málið og hvort rétt væri að tengja saman hönnunarsafn og hönnunarvettvang. Við höfum náttúrlega ekki ótakmarkaða fjármuni en ég held að það gætu orðið mikil samlegðaráhrif, það er mín persónulega skoðun, að sjá þetta fara saman og vinna hvort með öðru, því það er oft þannig að safn styður við vettvanginn og öfugt, og gæti þá orðið sómasamleg kynning af því fyrir hönd lands og þjóðar.

Þrátt fyrir að formlegur samningur hafi ekki verið undirritaður við hönnunarsafnið starfar það engu að síður ötullega að markmiðum sínum, það er rétt að undirstrika það, sem er að safna íslensku og erlendu listhandverki og hönnunarmunum og standa fyrir sýningum og kynningum. Safnið er sem fyrr sérsafn með stöðu deildar í Þjóðminjasafninu og fær fé til rekstrar á fjárlögum. Af fjárlögum þessa árs er það 9,3 millj. kr. Garðabær greiðir fyrir sýningaraðstöðu safnsins.

Rétt er að taka það fram líka, frú forseti, að við erum að endurskoða safnalögin og þá erum við m.a. með í huga hvort við eigum að koma upp því sem kallað er ábyrgðarsafn og þá væri hugsanlega hægt að fella hönnunarsafnið undir slíkt safn þar sem ábyrgð þess væri skýrt skilgreind. Ég held að við þurfum að huga að nýjum leiðum varðandi skilgreiningu á söfnum. Eins og þau eru í dag hafa lögin skilað sínu en svo mikil þróun hefur orðið á sviði safnastarfsemi að við verðum að huga að því að lögin geti svarað því sem umhverfi þeirra krefst af þeim. Við munum að sjálfsögðu vinna þetta í samráði og samvinnu við hvort heldur hönnunarvettvanginn eða bara safnasviðið almennt í heild sinni.

Ég vonast engu að síður til þess, frú forseti, að ákvörðun um framtíð hönnunarsafnsins liggi fyrir sem fyrst þannig að hægt verði að huga að byggingu húsnæðis fyrir safnið með metnaðarfullum hætti. Það stendur ekkert annað til en oft tekur sá tími nokkuð lengri tíma en menn ætla í upphafi að undirbúa og sjá fyrir allar þær aðstæður sem upp geta komið en um leið er verið að huga að því við þessa vinnu hvernig hægt er að nýta fjármunina sem best og hvernig framtíðarfyrirkomulaginu er best háttað. Ég held þess vegna að samvinna allra aðila á þessu sviði sé besta leiðin.