132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Skólafatnaður.

441. mál
[14:29]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Allt of oft í fyrra starfi mínu í íslenskum skólum fann ég til þess hvernig hinn harði heimur tískunnar lék börn, sérstaklega af efnaminni heimilum og hversu sárt þau voru oft leikin af þessu. Þau gátu ekki staðist hina hörðu samkeppni og leið fyrir vikið illa og það var sárt að horfa upp á það. Að sumu leyti má taka undir að slíkar aðstæður geti verið ákveðin gróðrarstía fyrir einelti en mestu máli skiptir að vegna þessa líður ef til vill mörgum börnum ekki allt of vel í skóla. Þess vegna eigum við að vera opin fyrir þeirri hugmynd sem hér er hreyft. Þar sem þetta hefur verið reynt, eins og t.d. í Áslandsskóla, virðist reynslan vera nokkuð jákvæð en ég tek undir með hæstv. ráðherra, að ráðherra á ekki að gefa út nein fyrirmæli um þetta heldur þarf að vinna þetta með foreldrum, nemendum og skólasamfélaginu en alla vega má reyna að koma af stað vakningu gegn þeim aðstæðum sem hér hafa skapast.