132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Viðbúnaður Landhelgisgæslunnar.

155. mál
[15:26]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Spurt er:

„Hefur farið fram sérstakur undirbúningur hjá Landhelgisgæslunni fyrir aukið eftirlit með skipaflutningum og siglingum þegar siglingaleiðir opnast um norðurheimskautið?“

Svarið er: Já, þetta er hlutur sem litið hefur verið til hjá Landhelgisgæslunni og hún er upptekin af eins og allir sem líta til þróunar hér á siglingaleiðum okkar, þ.e. leiðunum í kringum landið. Þetta er viðfangsefni sem þarf að líta til og tek ég mið af því, m.a. við gerð krafna vegna nýs varðskips sem er í undirbúningi og er núna á því stigi að verið er að skoða fyrstu tilboð sem bárust. Við veltum fyrir okkur hverja eigi að velja í næsta áfanga við undirbúning að smíði skipsins. Það er vissulega haft í huga við gerð þess skips og líka þegar litið er til þeirra flugvéla sem verið er að undirbúa að kaupa fyrir Gæsluna og þess búnaðar sem verður um borð í henni að flugvélin verði þannig úr garði gerð eða með slíkan búnað að unnt sé að fylgjast með því sem nefnt er í lið 2, slysum eða óhöppum við olíuflutninga. Eitt er að slys verði eða óhapp þar sem olíu er sleppt í hafið, hvernig eigi að bregðast við því og hafa tæki til að fylgjast með því, annað er síðan ef stórslys verða á stórum olíuflutningaskipum. Það er ekki viðfangsefni sem nein ein þjóð ræður við, heldur þarf samstarf margra þjóða eins og við vitum. Þar er um að gera að líta til þess að nýta sér alþjóðlegar reglur og samninga um að krefjast þess að þau skip sem verða hér á ferðinni í nágrenni við landið, hvort heldur er austan- eða vestanvert við það, hvort heldur er á milli Íslands og Færeyja eða Íslands og Grænlands, virði samninga þegar fram líða stundir og olíuflutningar hefjast með risaskipum hér frá norðurheimskautssvæðunum. Þá á að gera kröfur um að þessi skip verði þannig úr garði gerð að allra öryggiskrafna sé gætt. Þar hafa menn alþjóðasamninga til að styðjast við og einnig er hægt að gefa fyrirmæli um siglingaleiðir og aðra slíka hluti sem þarf að hafa í huga.

Gæslan og starfsmenn hennar og dóms- og kirkjumálaráðuneytið hafa haft auga á þessu viðfangsefni sem vikið er að í fyrirspurninni við undirbúning að smíði nýrra skipa og öllum er ljóst sem að þessum málum starfa hér að þarna eru líklegar breytingar vegna þess að olíuvinnsla er að hefjast á norðurslóðum, norðar en áður og líklegt er að stór olíuskip muni sigla í nágrenni við Ísland.