132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Viðbúnaður Landhelgisgæslunnar.

155. mál
[15:30]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör og fagna því að menn huga að þessum málum hjá Landhelgisgæslunni og í ráðuneyti hans. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra í framhaldi af þessu hvenær gert sé ráð fyrir að þessi búnaður verði kominn hingað og hvenær við verðum komin með þetta nýja skip og þessi búnaður þannig orðinn til hér á landi. Vissulega er það svo að ef stórslys verður reynir auðvitað á samstarf þjóða, það er ljóst, og við erum með samninga við aðrar þjóðir um það. Við þurfum samt að geta brugðist við með bráðaaðgerðir ef mengunarslys eða olíuslys verður á hafsvæði okkar.

Við þurfum að eiga slíkan búnað og ég spurði hvað við ættum nú. Eigum við olíugirðingar, eigum við olíuuppsugutæki og þann búnað sem þarf? Ef ekki, hvenær verður slíkur búnaður til hjá Landhelgisgæslunni?

Annars þakka ég fyrir og fagna því að menn huga að þessu. Þessi þróun er mun hraðari en menn gerðu ráð fyrir og þegar maður heyrir umræðu um þessi mál á erlendum vettvangi er stöðugt verið að spá því að þetta gangi enn hraðar en vísindamenn hafa sagt undanfarið.