132. löggjafarþing — 56. fundur,  1. feb. 2006.

Snjómokstur.

427. mál
[15:56]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að bera fram þessa fyrirspurn en svar mitt er að dagleg þjónusta er samkvæmt gildandi reglum um snjómokstur frá Akureyri til Reykjahlíðar. Það er daglegur mokstur þar og þjónusta. En þaðan til Egilsstaða og frá þjóðvegi 1 til Vopnafjarðar er þjónustan alla daga nema á laugardögum eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda.

Á báðum þessum leiðum er í gildi samningur við verktaka um þjónustuna og ekki áformað að breyta þeim samningi eða þeirri þjónustu á þessum vetri. Áform eru um að reglur um vetrarþjónustu verði endurskoðaðar fyrir næsta vetur en á þessari stundu er ekki ljóst hvaða breytingar kunna að verða gerðar í núgildandi reglum hvað þetta varðar.

Rétt er að skýra hvernig færð hefur verið á vegum á þessu svæði og má geta þess að ekki var ófært marga daga á árunum 2004 og 2005 sem betur fer og í raun var engan dag ófært árið 2005. Við höfum því verið sérstaklega heppin með veður og færð á þessum tíma. En ég tel eðlilegt að farið verði yfir þær óskir sem mér eru alveg ljósar frá sveitarstjórnarmönnum og öðrum á þessu svæði um endurskoðun og það verður gert þegar snjómokstursreglurnar verða teknar til frekari meðferðar fyrir næsta vetur.

Það er kannski rétt af þessu tilefni að fara aðeins yfir það. Auðvitað vildi ég vera laus við að moka snjó, það er ekki mjög góð fjárfesting út af fyrir sig. Það væri betra að moka í nýja vegi og byggja nýja vegi og sums staðar jarðgöng en ég held engu að síður að þessi þjónusta, vetrarþjónustan, sé mjög mikilvæg. Hún er mikilvæg í fyrsta lagi til þess að vegfarendur komist leiðar sinnar en ekki síður til að auka öryggið á vegunum. Þess vegna tók ég þá ákvörðun að hækka fjárveitingar innan útgjaldaliðar Vegagerðarinnar, hækka útgjöld til vetrarþjónustu verulega á síðasta ári og sú regla gildir enn þá á þessu ári. Ég er sannfærður um að það borgar sig fyrir okkur í öllu tilliti því að við þurfum á Íslandi að taka tillit til vetraraðstæðna og færðar á vegum og sinna þeirri þjónustu sem allra best. Ég er feginn að heyra að ég hef stuðning hv. þingmanna í þeim áformum og vænti þess að svo verði áfram en þetta verður endurskoðað fyrir næsta vetur.