132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Stytting náms til stúdentsprófs.

[15:00]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. menntamálaráðherra til hamingju með að hafa loksins hlustað á rödd skynseminnar og tekið ákvörðun um að falla frá tillögum sínum um skerðingu stúdentsprófsins. Aðferðir hæstv. ráðherra hafa mætt mikilli andstöðu meðal skólafólks og verið harðlega gagnrýndar jafnt af þeim sem og okkur í stjórnarandstöðunni. Róttækar breytingar á menntakerfinu verður að vinna með skólasamfélaginu en ekki í slagsmálum og blóðugum átökum við það eins og einkenndi framgöngu hæstv. menntamálaráðherra í málinu.

Ég fagna því eindregið að skerðingaráform menntamálaráðherra virðast úr sögunni og að hún hafi látið undan þrýstingi í málinu. Afleiðingar áformanna hefðu orðið alvarlegar fyrir framhaldsskólann. Tillögurnar hafa fyrst og fremst verið pólitísk ákvörðun um sparnað og niðurskurð í menntamálum til að mæta stórum árgöngum og aukinni sókn í framhaldsskóla en þær hafa alls ekki miðað við það að auka val nemenda og bæta samkeppnishæfni þeirra með auknu svigrúmi varðandi námshraða.

Samfylkingin hefur lýst því yfir að hún styður lækkun útskriftaraldurs úr framhaldsskólum en jafnframt lagt þunga áherslu á að það verði gert með því að endurskoða nám á framhalds- og grunnskólastigi í heild sinni. Þetta tvennt þarf að vinna saman eins og bent er á í ályktun Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins haustið 2003. Flokkurinn hefur jafnframt lagt þunga áherslu á valfrelsi nemenda og talað fyrir því að nemendur eigi kost á að velja sinn eigin hraða í gegnum menntakerfið. Við höfum líka fagnað því frumkvæði sem ýmsir grunnskólar hafa í vaxandi mæli sýnt með því að gefa nemendum í efri bekkjum kost á að flýta fyrir sér með því að læra áfanga sem duga þeim sem áfangi inn í framhaldsskólann. Við höfum hins vegar hafnað tillögum Sjálfstæðisflokksins sem beinast ekki að styttingu, heldur skerðingu í þeim tilgangi að ná fram sparnaði í skólakerfinu. Lækkun útskriftaraldurs úr framhaldsskólum er grundvallarbreyting á íslensku menntakerfi og slík breyting þarfnast afar vandaðs undirbúnings. Forsendan er alltaf víðtækt samráð við skólasamfélagið sem byggist á heildstæðri skoðun á skólakerfinu öllu, frá leikskóla og upp í háskóla.

Ég óska skólasamfélaginu til hamingju með þann sigur sem felst í yfirlýsingu ráðherrans. Samkomulag hennar og Kennarasambandsins byggir á því að fallið verði frá fyrri tillögum um styttingu náms til stúdentsprófs. Það er fagnaðarefni og óska ég skólasamfélaginu öllu til hamingju með það.

Þingflokkur Samfylkingarinnar skoraði fyrr í vikunni á hæstv. ráðherra að falla frá tillögunum. Nú hefur það gengið eftir og a.m.k. áfangasigur er unninn. En nú reynir á hæstv. ráðherra menntamála, stuðningur Kennarasambandsins við málið er að skilja skilyrtur við að áður boðuð skerðing á námi til stúdentsprófs komi ekki til framkvæmda þegar aðlögunartíma að breyttri námsskipan lýkur árið 2010, þ.e. eftir fjögur ár. Samfylkingin leggur sem fyrr áherslu á fjölbreytni og sveigjanleika í skólastarfi þannig að skólinn geti mætt þörfum ólíkra nemenda, bæði hvað varðar námsval og námshraða. Það verður að tryggja frelsi nemandans til að velja og svigrúm skólanna til að bjóða upp á hraðferð í gegnum námið fyrir þá sem það kjósa.

Spurningin sem ég ætlaði að beina til hæstv. menntamálaráðherra þegar umræðan var ákveðin fyrir nokkru síðan var sú hvort hæstv. ráðherra ætlaði að falla frá áformum sínum um styttingu náms til stúdentsprófs. Það liggur nú að mestu fyrir að svo sé, búið er að fresta málinu í fjögur ár og skólunum þar með gefinn sveigjanleiki, vonandi til að þróast hver með sínum hætti þannig að skólarnir hafi sjálfstæði og val til að ákveða að þeim tíma loknum hvernig námi verður fyrir komið innan veggja þeirra. Því er kannski nærtækara að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig hyggst ráðherrann vinna að málinu í kjölfar samkomulagsins við Kennarasambandið? Mér var nefnilega ókunnugt um það samkomulag þegar ég sendi hæstv. ráðherra spurninguna.

Allt um það vona ég að túlkun ráðherra sé eins og mín, að fallið sé endanlega frá áformum um skerðinguna, það skiptir öllu máli, og skólasamfélaginu gefið svigrúm og frelsi og skólunum sjálfstæði til að þróast hver með sínum hætti. Þannig verður skólakerfið áfram byggt upp af fjölbreyttum og góðum framhaldsskólum sem byggja hver á sinni sérstöðu og bjóða upp á ólíka valkosti fyrir nemendur í framhaldsskólakerfinu. Stúdentsprófið má ekki verða gengisfellt með vanhugsuðum tillögum um skerðingu sem eru fyrst og fremst pólitískt markmið um sparnað í skólakerfinu.