132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[15:59]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt, að þetta gengur ekki í berhögg við það sem sjálfstæðismenn í borginni vilja. Ég vona að það sé skýrt. Þetta gengur heldur ekki gegn sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga. Sveitarfélög hafa þetta á valdi sínu. Þau geta sagt nei við rekstri slíkra skóla og þau geta sagt já. Samþykki þau rekstur slíkra skóla eru þau skuldbundin til að greiða ákveðið lágmarksframlag sem fundið er út frá útreikningum Hagstofunnar.

Þetta kemur ekki til með að auka útgjöld sveitarfélaganna. Ekki fjölgar börnunum við þessa breytingu. Menn hljóta að gera ráð fyrir ákveðnum fjölda barna á skólaaldri. Það á ekki að skipta neinu máli hvort þau ganga í einkarekinn skóla eða opinberan skóla. Tala barnanna er hin sama þannig að kostnaður sveitarfélaganna ætti á engan hátt að aukast með þessu. Það er ekki gengið gegn sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaganna heldur er ætlunin fyrst og fremst að tryggja fjölbreytni og (Forseti hringir.) valfrelsi í skólamálum.