132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[18:07]
Hlusta

Jón Kr. Óskarsson (Sf):

Frú forseti. Háttvirti þingheimur. Þegar rætt er um grunnskólann er um stórt mál að ræða. Ég vil í því sambandi minnast á nokkur atriði sem ég tel mjög mikilvæg, t.d. að í lífsleikni sé veitt fræðsla í fjármálum. Eins fari fram danskennsla og námskeið í fundarsköpum og ræðumennsku. Þetta eru að mínu mati mjög mikilvæg forvarnamál fyrir nemendur í grunnskólum, til að þroska sig og losna jafnvel við ákveðna feimni og öðlast kjark í samskiptum við aðra nemendur.

Ég hvet einnig til að reynt verði eftir öllum mögulegum leiðum að koma í veg fyrir einelti í skólum og hjálpa þeim nemendum sem fyrir því verða. Huga þarf vel að nemendum sem eiga við erfiðleika að stríða í námi, t.d. vegna lesblindu, ekki síður en að skapa þeim nemendum grunnskóla sem eru afburðanemendur gott umhverfi og hagstætt. Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.