132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Uppbygging álvera í framtíðinni.

[15:09]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég spurði ákveðinnar spurningar og fékk ekki mjög ákveðið svar. Satt að segja var svarið nokkuð loðið, þ.e. ríkisstjórnin ætlar að sjá til þess að viðræður verði uppi við þessa þrjá aðila um byggingu álvers í Helguvík, fyrir norðan og stækkun í Straumsvík. Síðan á að koma í ljós hvort samningar takast.

Ég hlýt hins vegar að líta svo á, virðulegur forseti, þar sem því hefur ekki verið svarað með öðrum hætti að þessar þrjár framkvæmdir rúmist ekki innan Kyoto-bókunarinnar og rúmist ekki innan þeirra hagstjórnarmarkmiða sem við höfum sett okkur, þ.e. eitt af þessum þremur getur gert það en ekki þrjú. Er þá ekki verið að draga þrjú fyrirtæki og þrjú sveitarfélög á asnaeyrum með því að segja þetta ekki skýrt í ræðustól Alþingis, virðulegur forseti?