132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Uppbygging álvera í framtíðinni.

[15:10]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Ég man þá tíð þegar við sömdum um Kyoto-bókunina. Þá sagði þáverandi formaður Samfylkingarinnar að sú beiðni yrði hlegin út af borðinu.

Það liggur fyrir að við höfum heimild til að byggja stóriðju sem samsvarar 1.600 þús. tonnum af CO 2 . Það ákvæði gildir til 2012. Hvað tekur við eftir 2012 vitum við ekki. Ég hef svarað því mjög skýrt að við hljótum að gera þá kröfu áfram að geta nýtt okkar endurnýjanlegu auðlindir og tekið þátt í því að minnka mengun í heiminum með því að framleiða rafmagn með vistvænum hætti á Íslandi. Það vil ég að sé alveg skýrt.

Ég veit að sjálfsagt telja margir hér inni að einhverjar frekari kröfur af okkar hálfu í þeim efnum verði hlegnar út af borðinu, og kannski vill núverandi formaður Samfylkingarinnar segja það. En sú mun verða krafa núverandi ríkisstjórnar.