132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Loðnuveiðar.

[15:37]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég hef óskað eftir utandagskrárumræðu um loðnuveiðar, ástand loðnustofnsins og nýtingu hans, umræðu við hæstv. sjávarútvegsráðherra. Hvers vegna skyldi ég hafa gert það? Jú, ég gerði það vegna þess að hér tel ég að við séum að ræða ákveðin grundvallaratriði í því hvernig við nýtum okkar mikilvægustu endurnýjanlegu auðlindir sem eru fiskstofnarnir í hafinu í kringum landið, í raun og veru ekki bara loðnu heldur aðra fiskstofna einnig. Nú hefur það gerst að eftir eina mestu loðnuleit sögunnar sem staðið hefur yfir vikum saman á öllu hafsvæðinu frá sundinu milli Íslands og Grænlands og austur um Norðurland og úti fyrir Austfjörðum hafa samtals mælst eitthvað um 600 þús. tonn af loðnu sem er minnsta mæling í nokkra áratugi. Á grundvelli þessa hefur verið gefinn út kvóti upp á rétt rúmlega 200 þús. tonn. Hér er verið að fara eftir ákveðinni þumalfingursreglu sem hefur verið notuð í mörg ár við nýtinguna sem hljóðar upp á að það eigi að skilja eftir á hverju ári eitthvað um 400 þús. tonn af loðnu til að hrygna svo að stofninn geti nú fengið færi á því að endurnýja sig.

Það má náttúrlega spyrja, virðulegi forseti, hversu áreiðanlegar þessar mælingar eru. Ég skal svo sem ekkert um það segja en ég sé það á þeim gögnum sem hafa verið lögð fram á vefsíðu Hafrannsóknastofnunar að loðnan er dreifð á mjög stóru hafsvæði út af Austfjörðum og rannsóknaskipið hefur siglt fram og til baka um þetta svæði á þó nokkuð löngum tíma. Mér finnst full ástæða til að setja spurningarmerki við þessa mælingu, hversu nákvæm hún er. En gott og vel, látum svo vera að það séu 600 þús. tonn af loðnu í sjónum núna, vonandi meira, en ef það er svona hlýtur maður að spyrja hvort ekki hafi verið ástæða til að fara varlega í það að gefa út þennan 210 þús. tonna kvóta í ljósi aðstæðna hér við land og í ljósi ýmissa upplýsinga sem hafa komið fram á undanförnum missirum um það að við séum hugsanlega að nýta þennan mikilvæga fiskstofn vitlaust, grundvallarfiskstofn í vistkerfinu hér við Ísland, hvort við förum ekki offari við veiðarnar.

Ég hef svo sem rætt þetta hér áður og velt upp ýmsum spurningum varðandi þessa hluti en því miður sýnist mér sem stjórnvöld ætli ekki að taka neitt mið af þeim aðvörunum sem komið hafa fram, ekki ætla að taka neitt mið af þeim góðu röksemdum sem hafa verið færðar fram í þessu máli, hvorki af alþingismönnum á hinu háa Alþingi né fólki í atvinnugreininni sjálfri. Fjöldamargir sjómenn og skipstjórar hafa tjáð sig um þessi mál en líka aðrir, þar á meðal líffræðingar, og sagt að við séum að gera hlutina rangt.

Það má til að mynda spyrja sig hvort ekki hefði átt að fara varlega núna í ljósi þess að stofninn virðist vera lítill, í ljósi þess að fæðuþörf botnfiska virðist, og er mjög sennilega, meiri en í meðalári vegna hækkandi hitastigs sjávar, í ljósi þess að ýsustofninn virðist vera mjög stór — kannski hefur hann aldrei verið jafnstór — í ljósi þess að þorskstofninn virðist glíma við viðvarandi ætisskort ár eftir ár þar sem nýliðunin hefur gersamlega brugðist í allt of mörg ár svo að nú blasir við mikil hætta af þessum völdum.

Ég bendi á að um helgina kom mjög athyglisverð frétt frá Færeyjum í Morgunblaðinu þar sem færeyskir fiskifræðingar hafa komist að raun um það að fæðuframboð skiptir einmitt mjög miklu máli fyrir nýliðun og vöxt botnfisksstofna. Er nú ekki ástæða fyrir okkur á Íslandi til að fara aðeins að hugsa okkar gang? Ég get líka bent á að hér var haldin ráðstefna um loðnu og loðnuveiðar fyrir nokkrum árum, alþjóðleg ráðstefna á Íslandi, þar sem lagðar voru fram greinar sem bentu til þess að loðnan væri einmitt mjög mikilvæg fyrir þorskinn, til að mynda við Kanada og líka í Barentshafi. Talandi um Barentshaf, þar hafa menn á síðustu 10 árum veitt alls 1,3 millj. tonna af loðnu. Þar hefur þorskstofninn verið veiddur, harkalega segja margir fiskifræðingar og langt umfram ráðgjöf en þó virðist þorskstofninn þar þola þetta auðveldlega. 1,3 millj. tonna af loðnu á 10 árum. Á sama tímabili höfum við Íslendingar veitt hér á Íslandi 10,5 millj. tonna af loðnu. Þarna erum við að taka gríðarlega mikla næringu út úr vistkerfinu og þetta hlýtur einhvers staðar að verða til þess að eitthvað láti undan. Ég tel að það sé full ástæða til þess nú, virðulegi forseti, að við förum að spyrja okkur þeirrar spurningar hvort ekki sé kominn tími til að fara sér aðeins hægar í þessum efnum þó að ég sé alls ekki með því að mælast til þess að loðnuveiðar verði algjörlega stöðvaðar.