132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[19:03]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega geta aflabrögð á milli ára verið mjög mismunandi frá einu svæði til annars. Það er ekkert nýtt. Það er alveg rétt að það eru mjög góð aflabrögð við Grímsey núna. Það má vel vera að líka séu mjög góð aflabrögð við Vestfirði einmitt núna. Ég hef svo sem ekki kynnt mér það nákvæmlega. Hins vegar er ég hér með tölur fyrir framan mig sem sýna að miklar breytingar hafa orðið, tilflutningur á kvóta í smábátakerfinu, til að mynda frá 1. september 2004 til 1. september 2005. Þetta er tafla sem var birt í Morgunblaðinu og ég sé ekki betur en að Strandir hafi tapað hér 128 þorsktonnum, Norðausturland 128 þorsktonnum. Ísafjarðarsýslur hafa tapað 1.000 tonnum af þorski. Barðastrandarsýslur hafa tapað 750 tonnum af þorski í kvóta.

Segir þetta ekki einhverja sögu?

Síðan sjáum við að miklar breytingar hafa orðið á bátum og hvar þeir heyra til. Mest hefur verið flutt frá Vestfjörðum, 1.840 þorskígildi og 1.704 tonn af þorski. Endurspeglar þetta ekki þær fréttir sem síðan voru í Bæjarins besta um að aflasamdráttur á Vestfjörðum hefði verið mjög mikill? Ég hefði nú haldið það. Ég þyrfti raunar ekki að fara neitt í grafgötur með að sú er skýringin. Bátarnir hafa verið seldir í burtu og kvótarnir með. Flestir af bátunum hafa síðan verið brotnir mélinu smærra, verið sendir á bálið eða seldir fyrir lítið fé til kvótalausra útgerðarmanna.

Þetta eru staðreyndirnar sem liggja á borðinu og afleiðingar af þeim ákvörðunum sem voru illu heilli teknar hér í þessum sal vorið 2004.