132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

404. mál
[15:03]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Frumvarpið sem við ræðum nú um opinber hlutafélög er svo sem góðra gjalda vert en eins og aðrir hafa komið inn á er ýmislegt sem mætti betur fara við afgreiðslu málsins. Þar sem við erum í 1. umr. hljótum við að gera ráð fyrir að frumvarpið muni taka verulegum breytingum í þá átt að lagfæra það.

Við búum einnig svo vel, hæstv. forseti, að hér er annað mál á dagskránni um sama efni frá Samfylkingunni, 7. mál á dagskrá í dag og í því eru ýmis atriði sem ég teldi að þyrfti að fara inn í frumvarp hæstv. iðnaðarráðherra til að málið gæti hugsanlega farið í þann búning að vel mætti við una í lagasetningu frá Alþingi um það sem hér er nefnt opinber hlutafélög.

Ég ætla hins vegar að fara yfir frumvarp hæstv. ráðherra og víkja að ýmsu sem ég tel að þar megi breytast. Reyndar er það svo að hugmyndir mínar um opinber hlutafélög falla að mörgu leyti saman við þær hugmyndir sem Samfylkingin hefur sett fram í frumvarpi sínu um breytingu á lögum um hlutafélög. Vil ég víkja að 1. gr., hæstv. forseti, en þar segir í frumvarpi hæstv. ráðherra:

„Opinbert hlutafélag merkir í lögum þessum félag sem hið opinbera á að öllu leyti.“

Hæstv. forseti. Þetta tel ég vera allt of þrönga skilgreiningu á því sem við erum að ræða um, að binda þetta niður við það að hlutafélag sem teljist opinbert hlutafélag að því leyti sem menn eru hér að fjalla um, sé að öllu leyti í eigu opinberra aðila. Ég hefði talið að nægjanlegt væri að horfa til þess að opinber hlutafélög teldust þau hlutafélög með tilliti til þeirrar lagasetningar sem hér er fyrirhugað að setja sem væru að meiri hluta í eigu opinberra aðila og þar værum við í rauninni að tala bæði um meirihlutaeign ríkisstjórnar og ríkis, íslenska ríkisins sem ríkisstjórnin færi þá með meiri hluta í og hins vegar hlutafélög sem sveitarstjórnir ættu meiri hluta í. Þá held ég að við getum ekki dregið í sundur neitt um hvort það séu ein eða fleiri sveitarstjórnir, þ.e. ef fleiri en eitt sveitarfélag mynda meirihlutaeign í sveitarfélagi teljist slík hlutafélög opinber hlutafélög og með sama hætti þau hlutafélög sem ríkið á meiri hluta í og ríkisstjórnin á hverjum tíma fer með umboð hluthafans. Þetta held ég að sé nauðsynlegt að hafa í huga.

Síðan held ég að einnig sé rétt að benda á það, hæstv. forseti, að menn þurfa að líta til þess og þeirrar skilgreiningar sem hlýtur að vakna í framhaldi af því sem ég hef sagt um það þegar opinber félög eiga í öðrum félögum og eiga þar meiri hluta, jafnvel félögin að mestu leyti. Hvaða dæmi höfum við næst okkur í því sem við höfum nýlega rætt? Ætli það séu ekki félögin á raforkusviðinu, hæstv. forseti, þar sem verið var að tala um stofnun hlutafélags í eigu Rariks, Orkubús Vestfjarða og Landsvirkjunar. Þetta eru allt saman félög sem ríkið á annaðhvort eitt eða verulegan hluta í og annars vegar eins og í Landsvirkjun þar sem er um sameignarform að ræða í því hlutafélagi, en Reykjavíkurborg og Akureyrarbær ásamt ríkinu mynda eignaraðilana að því hlutafélagi. Þess vegna held ég að nauðsynlegt sé að huga einnig að því við vinnslu á slíkri löggjöf sem við erum að ræða í frumvarpi hæstv. iðnaðarráðherra að skoða það hvernig skilgreiningin nær þá til félaga sem önnur félög í eigu ríkisins eða sveitarfélaga eiga að mestu leyti eða meiri hluta í og geta þar af leiðandi orðið algerlega ráðandi í slíku hlutafélagi þriðja aðila. Þetta finnst mér vanta í 1. gr. því hún er algerlega takmarkandi að þessu leyti og segir að þetta skuli ná til opinberra hlutafélaga sem merkir þá í lögum þessum hlutafélög sem hið opinbera á að öllu leyti. Þetta er atriði sem ég held að menn verði að skoða mjög gaumgæfilega og ég held reyndar að eins og þetta er dregið fram í frumvarpi Samfylkingarinnar nái það nokkuð vel þeim markmiðum, hæstv. forseti. Vitnað hefur verið fyrr í dag í frumvarp Samfylkingarinnar um þetta atriði. Ég held að menn þurfi að skoða mjög gaumgæfilega sem þar er upp sett að því er þetta varðar. Ég held að frumvarp ráðherrans mundi batna verulega við það.

Síðan held ég að samhliða þessu væri rétt að hugleiða eftirfarandi þegar búið er að velta fyrir sér eignarhaldinu. Eiga menn þá ekki einnig að velta upp því sjónarmiði hvaða ákvörðun þarf að taka og hvernig á að taka hana þegar kemur að því að selja slík hlutafélög? Þá held ég að sé einmitt mjög áhugavert að skoða það að viðkomandi sveitarstjórnir samþykki það eða Alþingi og vafalaust sum félög. Ég nefni tilvonandi hlutafélagsform Ríkisútvarpsins að aukinn meiri hluta þurfi til að selja slíka stofnun, enda hafa stjórnarliðar lýst því yfir að það stæði alls ekki til að selja Ríkisútvarpið. Ég tel að um slíka stofnun eins og Ríkisútvarpið sem öll þjóðin telur eign sína og er mjög mikilsvert fyrir þjóðfélagið eigi að taka ákvörðun jafnvel með auknum meiri hluta í hv. Alþingi ef af sölunni verður og er það nokkurn veginn í samræmi við þau orð sem hér hafa fallið m.a. úr þessum ræðustól að alls ekki standi til að selja Ríkisútvarpið þó að vissulega séu þingmenn á hv. Alþingi sem vilja það. En ég hygg að mikill meiri hluti alþingismanna sé ekki á þeirri skoðun, hæstv. forseti.

2. gr. fjallar um jafnrétti karla og kvenna og jafna stöðu og er allt gott um það að segja að auka það. Hins vegar eru ekki sett nákvæmlega um það nein lágmarksmörk og mætti athuga það við afgreiðslu málsins hvert lágmarkshlutfall getur verið í kynjahlutfalli í stjórnum slíkra félaga.

3. gr. er um upplýsingaskyldu stjórnarmanna og hef ég svo sem ekkert við hana að athuga, hæstv. forseti. Það er í sjálfu sér eðlilegt að stjórnarmenn og framkvæmdastjórar í opinberum félögum, með þeirri skilgreiningu sem ég gerði áðan, gefi upp stöðu sína um eign í öðrum félögum o.s.frv.

Síðan víkur aðallega að upplýsingaþættinum, þ.e. hvernig á að gefa upplýsingar m.a. inn á vefsíðu félagsins o.s.frv. og að fulltrúum fjölmiðla sé heimilt að sækja aðalfund og að þeir skuli boðaðir á aðalfund. Fram hefur farið nokkur umræða um að þeir væru ekki boðaðir á hluthafafundi í slíkum félögum og ég held að gjarnan þurfi að sameina þessar greinar, 5. og 6. gr., og fylla út í það hvernig fjölmiðlar eiga rétt á að sækja bæði hluthafafund og aðalfund til að fá þar upplýsingar og einnig um stöðu sína á slíkum fundum. Hafa þeir málfrelsi eða eru þeir aðeins hlustendur á slíkum fundi? Mega þeir spyrja spurninga o.s.frv.?

Síðan er 7. gr. um að fulltrúar fjölmiðla skuli í síðasta lagi 14 dögum eftir aðalfund eiga aðgang að fundargerðabókum og öðru slíku. Mér finnst hins vegar vanta í frumvarpið í heild sinni ákvæði um að borgarar eigi aðgang að upplýsingum. Ég hefði talið að sveitarstjórnarmenn í þeim sveitarfélögum þar sem sveitarfélög eru eignaraðilar að félögum ættu að eiga rétt á því að krefja stjórn í opinberu hlutafélagi um upplýsingar og óska eftir því að fá svör þar við ákveðnum upplýsingum og alþingismenn eigi einnig þann rétt gagnvart hlutafélögum sem teljast opinber hlutafélög að fá upplýsingar um starf og stefnu félagsins. Það eina sem kann að vera viðkvæmt finnst mér almennt í þessum hlutafélögum, þó opinber séu, er það hversu nákvæmlega þarf að skilgreina stefnu eða framtíðaráform slíks félags. Það kann að vera, hæstv. forseti, að menn séu að hugleiða að kaupa sig inn í önnur félög eða selja hluta af starfsemi o.s.frv. Mér finnst þurfa að setja það upp í einhverjar reglur um hversu víðtækar og nákvæmar slíkar upplýsingar eigi að vera því ef menn leggja framtíðaráform félagsins á borð kunna að vera í þeim upplýsingar sem geta orðið til þess að félagið, hvort sem það er í eign sveitarstjórna eða ríkis, sé í raun að setja í gang ferli sem gæti orðið til þess að viðskiptamöguleikar félagsins yrðu miklu minni eftir upplýsingagjöfina en fyrir.

Það er alþekkt þegar á að fara að birta upplýsingar sem áreiðanlegastar teljast um áform einhvers félags sem það hugsanlega vill stefna að í framtíðinni að þá bregst markaðurinn við því með ýmsum hætti og það getur þýtt að þær áætlanir sem þannig eru birtar opinberlega leiði til þess í fyrsta lagi að af slíkum viðskiptum verði alls ekki vegna þess að áætlanir og áform standist ekki og í annan stað að það komi niður á stefnu og starfsemi félagsins. Þess vegna held ég að þegar slík kynning fer fram þurfi að setja því einhvern ramma þótt æskilegt sé að það liggi fyrir hversu nákvæmlega menn þurfi að skilgreina áform sín í þá veru. Hitt er svo annað að menn geta auðvitað veitt slíkar upplýsingar í trúnaði, t.d. fyrir nefnd í Alþingi ef eftir er spurt, en það kann að vera mjög viðkvæmt að slíkar upplýsingar séu algerlega opnar í ákveðinni stöðu.

Þetta vildi ég segja, hæstv. forseti, því þetta á auðvitað almennt við um starfsemi hlutafélaga hvort sem þau eru opinber, hálfopinber eða í einkarekstri. Ég held hins vegar að það hljóti að vera mjög rík krafa til opinberra félaga að trúnaðarmenn geti fengið skýrar upplýsingar. Ég lít einnig svo á að við alþingismenn séum bundnir ákveðnum trúnaði ef við förum fram á upplýsingar og erum beðnir um trúnað vegna viðskiptahagsmuna, þá sitjum við undir því alveg eins og sveitarstjórnarmenn o.s.frv.

Eftir sem áður tel ég að það sé sjálfgefið að gefa sem gleggstar upplýsingar um framtíðarstefnu félagsins þó að það geti verið snúið að knýja fram upplýsingar um hvað menn hyggjast gera í fjárfestingum í næsta mánuði eða t.d. innan tveggja, þriggja mánaða. Þetta eru bara almennar vangaveltur sem ég held að allir hljóti að þurfa að velta fyrir sér þegar við erum að reyna að bæta löggjöfina að þessu leyti, því við þurfum einnig að huga að því að það geti ekki orðið félögunum, sveitarfélögunum eða ríkissjóði til skaða. Því það er annað að gefa upplýsingar í trúnaði en hafa þær algerlega opnar ef t.d. er opnað fyrir kynningu á framtíðaráformum sem eru á næsta leiti án þess að þau séu í hendi og um viðskiptaáform er að ræða sem t.d. okkur alþingismönnum hugnaðist að mörgu leyti til að styrkja þá innviði sem viðkomandi félag væri að starfa í.

Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að setja slík lög sem eru hér til umræðu en vek athygli á því nú í lok máls míns að annað frumvarp liggur frammi, frá Samfylkingunni. Mér sýnist það að mörgu leyti mun skýrara og betur unnið en frumvarpið sem hæstv. ráðherra hefur lagt fram. En þau verða væntanlega lögð saman í umfjöllun nefndar og þá hygg ég að út úr því megi koma allþokkalegt lagafrumvarp, þegar búið er að lagfæra það frumvarp sem hæstv. ráðherra hefur lagt fram. Ég tel að hér sé verið að vinna ágætisverk og vonast til að það standi ekki neitt í mönnum að lagfæra þennan lagatexta sem þarf greinilega mikillar lagfæringar við.